Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur í Reykjavíkurtjörn og Hafravatni

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Nykur í Reykjavíkurtjörn og Hafravatni

Sagt er að nykur sé í Reykjavíkurtjörn annað árið, en í Hafravatni í Mosfellssveit hitt árið. Svo er því varið að undirgangur er á milli og fer nykurinn eftir honum úr Hafravatni í Reykjavíkurtjörn og úr tjörninni aftur í vatnið. Enda þykjast Reykvíkingar hafa tekið eftir ógurlegum skruðningum, brestum og óhljóðum í Reykjavíkurtjörn þegar hún liggur, en þó eru að því áraskipti, því brestirnir koma af því að nykurinn gerir hark um sig undir ísnum og sprengir hann upp þegar hann er í tjörninni. En þegar nykurinn er í vatninu er aftur allt með feldi í tjörninni.