Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur í vötnum

Þeirra uppruni var sagður sá að menn hefðu yfirgefið kýr eða naut hálfflegin á blóðvelli og farið [að] eta blóðið strax aðhleypt; hafi þá fjándi farið í dauðyflið og með það í vötn, so sem Baulutjörn og víðar, og áttu þessi nykur að sjást eftir það með dragandi húðina eftir sér, en helzt áttu þau að hafa séðst undan slæmum veðrum. Og þegar skroflar eða dunar í slíkum stöðuvötnum undan veðrabrigðum var sagt það væri af umbrotum nykranna undir ísnum.

Gráir hestar var líka sagt að kæmu ýmist upp úr vötnum með hófana rangsælis eða sem sneru aftur. Til að temja þá hesta mátti binda upp í þá eða einhvorstaðar utan í þá; og ef það bilaði ekki út sólarhring mátti brúka hestana til þarfa. Áðurnefnd Baulutjörn átti að hafa nafn af téðu nykri, en líklegra hún hafi nafn [af] því að kýr fara jafna í hana til [að] bíta þar ferginisgras.