Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur eltur
Nykur eltur
Það var einu sinni bóndi á bæ og átti mörg börn. Hann átti gjafarhest gráan, stólpagrip, og eftir því var hann viljugur og hleypinn, og hélt hann mikið upp á hann og hafði hann því fyrir reiðhest. Hann hafði hann í hesthúsi skammt frá bænum. Hann lét börn sín á kvöldin eftir vöku þegar farið var í fjósið sópa upp fyrir hestinum, en gefa hönum meira ef hann var búinn. Eitt sunnudagskvöld sem oftar fóru þau út og fullorðinn maður með þeim frá næsta bæ, er hafði komið þar um kvöldið að spila. Þá sjá þau Grána á túninu. Biðja þau manninn að hjálpa sér til að ná hönum því hann var styggur, so þau elta hann langan veg þangað til þessi ókunnugi maður segir að þau skuli ekki vera að elta hann lengur fjandann arna. Hvarf hann þeim þá ofan í á eina er þar var nærri. Fóru börnin so heim aftur og að hesthúsi Grána. Var hann þá kjur inni og allur dyraumbúningur óraskaður. Fóru þau so inn og sögðu frá þessu og héldu allir að þetta hefði verið nykur. – Endar so þessi saga.