Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Partur af sögu Silunga-Björns
Partur af sögu Silunga-Björns
Silunga-Björn bjó að Vatni í Haukadal. Hann var sagður forn í skapi og margþekkjandi á marga hluti. Hann var mikill sundmaður; er sagt hann hafi synt um allt Haukadalsvatn og verið í því einu sinni svo dægrum skipti. Varð honum þá það til lífs að hann rataði upp um auga sem hann fór ofan um þegar sólin skein úr sömu átt; er sagt hann þar hafi séð dauða sinn næstan á ævi sinni. En öngum mundi hann segja frá hvað fyrir hann bar. Hann veiddi mikinn silung úr vatninu. Þegar ég var fjórtán ára gisti bóndi að nafni Einar og var Illhugason hjá móður minni og sagði hann henni eftirfylgjandi sögu:
Magnús[1] móðurfaðir minn var að fóstri hjá Silunga-Birni í ellefu ár. Hafði hann Magnús kæran og unni honum mikið. Þess verður hann var að Björn hvarf stundum um skammdegi burt einn eða tvo daga og vissi enginn hvað um hann leið. Þegar Magnús var fimmtán ára áræðir hann að spyrja fóstra sinn um hvarf hans, en hann færðist undan úrlausninni. Magnús verður því ákafari af fýsn sinni og biður nú fóstra sinn að lofa sér með þegar hann fari þessu næst. Vill Björn honum öngu lofa, en Magnús ánýjar það margsinnum og fer það að einu. Nokkru síðar segir Björn ef hann eigi að heyra nauð hans þá sé honum bezt að koma. Magnús verður fagnandi og fer með fóstra sínum um kvöld. Ganga þeir til fjalls upp og nokkuð langan veg eftir því, þar til þeir koma að hömrum tveimur. Þar gengur Björn að öðrum hamrinum og tekur eitthvað upp úr fikka sínum, drepur á hamarinn og tautar eitthvað. Lýkst þá hamarinn upp og sýnist Magnúsi þar standa hús vel umgengið. Björn segir honum að hann verði nú að breyta í öllu eftir sér; hann lofar því. Út í dyrnar sér hann kemur ungur kvenmaður; þókti honum hún einkar fögur að sjá. Hún spurði Björn hvurt maður sé með hönum. Hann kvað já við og bað húsa handa honum. Því var játað, þó seint. Fara þeir inn og sér hann þar kemur annar kvenmaður og er að sjá við aldur. Hún heilsar Birni og segir hann velkominn; býður hún þeim til sætis og er þar borð reist fyrir þeim og matur á borinn. Vel féll Magnúsi það hann borðaði og var það mest kjöt og brauð. Þegar það var búið eru þeir látnir fara í annað herbergi; þar vóru tvö rúm uppbúin. Gamla konan spurði Magnús hvurt hann vilji ekki hátta og kvað hann já við. Hvíslar hún einhvurju að Birni, en þegar þeir eru háttaðir fara þær og hátta sín hjá hvurjum. En það hafði Magnús sagt þá nótt mundi hann muna meðan hann lifði. Þegar hann kom nærri stúlkunni fannst honum sem hann væri allur að kala, en stundum að brenna, og það því fremur sem hún sýndi honum öll blíðlæti. Þessar kvalir útstóð hann alla nóttina, og því lengur sem leið því meiri viðbjóð fekk hann á henni. En þegar leið að degi klæðist hún skjótlega frá honum og þegar hún er komin á fætur talar hún til hans þannig: „Ég get vel skilið að þú munt ei þykjast hafa átt hér góða nótt hjá mér. En það kann ég segja þér svo illt þú þykist hafa átt þá er það lítilsvert hjá því sem ég hef mátt þola fyrir þínar sakir, og nýtur þú að Björns vinar vors ef þú fer héðan heill. Legg ég það á þig sem á mun hrína: þú skalt verða útlægur fyrir barneign.“ Kemur þá Björn að í þessu og kallar á Magnús og rekur hann fram að dyrum, en fer með þeim báðum á hvarf honum og er í burt nokkra stund; kemur hann hvatskeytlega að Magnúsi og rekur honum löðrung og segir um leið: „Smánastu út.“ Lýkst þá upp hamarinn og fara þeir á stað og er Björn lengi þegjandi. Loks talar hann til Magnúsar: „Það hef ég þókzt eiga þyngst við að býta síðan ég villtist í vatninu að ná þér héðan óhegndum ef ekki drepnum, og var mér jafnan grunur á að svona mundi fara; máttu við búast að ummælin munu á þér hrína og væri þau bezt fram komin sem fyrst meðan þú heldur fjöri þínu og kröftum og getur úr ráðið þó eitthvað í skerist fyrir þér.“ Er ekki getið að fleira hafi til borið í þessari ferð. En af Magnúsi er það að segja að hann var búinn að eiga fjögur börn laungetin þegar hann hafði sex um tvítugt og varð fjórðungsrækur eftir þágildandi lögum. Giftist hann fram af því og þókti nýtur bóndi. Hans dóttir var Þorbjörg er var móðir Einars Illhugasonar sem ég heyrði segja sögu þessa.
Einu sinni kom Silunga-Björn inn úr miklri frosthríð og settist á pallrönd sína alfenntur, rær bakföllum og er að umla af munni sér. Honum er boðið að fara af snjófötum, en hann gegndi því ekki. Hann hækkaði alltaf róminn þar til hann rak upp ámátlegt vein og mælti: „Þar skaðaði maðurinn sig.“ Tveim dögum síðar heyrðist að maður hefði skorið sig á háls hins vegar við fjallið og mundi hafa verið um sömu stund sem vanheilsan kom að Birni, og hef ég ei meira minnisfast um Björn þó ég viti að af honum vita sumir fleira.
- ↑ Magnús Jónsson (um 1675-1752) stúdent og bóndi, bjó lengst af í Snóksdal.