Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Prestsdóttirin frá Prestsbakka
Prestsdóttirin frá Prestsbakka
Á Prestsbakka á Síðu í Skaftafellssýslu bjó fyrir eina tíð prestur er Einar hét; hann var auðigur og átti fjölda barna. Hann lastaði mjög huldufólkssögur og sagði að huldufólk hefði aldregi til verið, manaði það að finna sig og hældist um á eftir að það hefði sig eigi hitt.
Eina nótt dreymdi hann að maður kom að rekkju hans og mælti: „Héðan í frá skaltu aldregi þræta fyrir að huldufólk sé til og skal ég nú taka elztu dóttur þína og skaltu aldregi sjá hana meir. Þú hefur lengi eggjað okkur.“ Að morgni var elzta dóttir hans hvorfin og var hún tólf vetra. Var hennar víða leitað og fannst hún eigi. En þegar börnin voru að leika sér á túninu kom hún í hópinn og lék sér við þau. Vildu þau fá hana heim, en þá hvarf hún ávallt. Hún sagði að ofboð væri vel farið með sig og hún ætti mikið gott. Föður hennar var ávallt að dreyma hana og sagði hún honum það sama og sagði að henni væri ætlaður prestssonurinn hjá álfafólkinu. Fór svo fram um hríð þangað til hún kom og sagði honum að nú langaði sig til að hann yrði í veizlunni sinni á morgun því nú ætti það að gilda. Upp frá því dreymdi hann hana aldrei.