Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sæbúar og vatna (inngangur)
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sæbúar og vatna
Sæbúar og vatna
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.
Álfar og sæbúar eða vatna eru náskyldir eftir þeirri hugmynd sem enn kemur fram í munnmælum vorum. Þess hefur þegar verið getið að álfar rói til fiskjar og stundi veiðiskap bæði í sjó og vötnum,[1] og bendir til þess meðal annars að menn kalla það álfavakir á ísum er loftið hefur haldizt í meðan vötn leggja; segja menn að álfar hafi vakað þar til að liggja á dorg eða veiða upp um silung. En þótt nú vatnabúar séu álfum svo nákomnir í sumu eru þeir að öðru leyti svo sérstaklegs eðlis að betur sýnist fara á að athuga þá sér í lagi.