Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sækýr úr Lagarfljóti

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sækýr úr Lagarfljóti

Tangi einn gengur út í Lagarfljótið að vestanverðu skammt fyrir utan bæinn Brekkugerði. Þar gengu í fyrndinni fimm kýr á land allar dökkgráar að lit. Brekkugerðisbóndinn var þar nærstaddur, hljóp til og gat sprengt blöðruna á milli nasanna á stærstu kúnni. Missti þá kýrin náttúru sína með að fara aftur í fljótið eins og aðrar sækýr. Síðan leiddi hann kúna heim og átti hana í margt ár, ól sveitungum sínum marga kú undan henni, og hélzt það kúakyn við í Fljótsdal fram eftir öllum öldum og var kallað Dumbukyn því sækýrin hét Dumba. Og enn í dag er tanginn nefndur Baulutangi.