Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sýslumaður í álfheimum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sýslumaður í álfheimum

Það er sagt að einu sinni hafi verið bóndi og kona. Það var á þeim tímum sem vandi fólks var að fara til tíða á jólanótt, en eins og vant var þurfti einhvur að vera heima og fannst hann jafnan dauður um morguninn þegar fólkið kom heim, og vildi svo enginn vera heima.

Einu sinni fyrir jól kom fátækur drengur og bað að lofa sér að vera um jólin. Bóndi gerir það með því móti að hann verði heima á jólanóttina, þá segist hann muni lofa honum að vera fram yfir nýár. Drengi þykir það gott, en hann var ekki varaður við því að fólkið dæi sem heima væri, en drengur hafði heyrt þetta.

Nú koma jólin og allt fólkið fór úr bænum nema drengur. Þegar fólkið er í burtu úr bænum tekur drengur til starfa og rífur fjöl úr þilinu og fer á milli þils og veggjar og hefur með sér hníf og skæri og svo setur hann fjölina í aftur, en hefur ofurlitla rifu. Er hann þarna litla stund þangað til kemur inn maður á grænum frakka mikið hár og illmannlegur; þar næst kemur inn kona og leiðir ósköp fríða stúlku við hlið sér. Fer þá maðurinn að þefa og segir að hér sé mannaþefur. Fallega stúlkan er einlægt að draga úr því og segir að það ekki mikið þegar fólkið sé nýkomið úr bænum, og menn hefðu sézt hefðu nokkrir verið heima, og svo hætta þau tali sínu. Þá á eftir kom margt fólk og hafði það mikið meðferðis. Svo leggur það niður borð og tekur upp alls kyns krásir og sezt að borðum. Þegar það er búið að borða þá fer það að dansa nema fallega stúlkan, hún vill ekki dansa, hún segir sér sé illt og klæðir sig úr yfirhöfninni sem var græn að lit og hengir hana fyrir framan rifuna þar sem drengur var inni fyrir. Hann tekur upp hníf og skellir stykkið úr kápunni og dregur til sín. Þegar dagur er kominn fer það að tygja sig til ferðar, en þegar stúlkan atlar að fara í kápu sína þá er búið að skella stórt stykki úr henni. Hún lætur ekkert bera á því og svo fer það (fólkið).

Þegar fólkið kemur heim þá er drengurinn heill á hófi og undrast það allt og fær hann að vera þar fram að nýári. Þá segir bóndi að það verði að fá menn til að vera heima. Drengur segir að þess muni ekki þurfa, því það muni ekki bera á þessu framar, en eftir nýár fer hann og veit ekki hvurt hann á að snúa sér. Þar var klettur í túninu. Hann gengur rétt framhjá klettunum; þá sér hann hvar kemur stúlka. Hún segir: „Kondu sæll drengur minn.“ Hann tekur því vel. Hún spyr hvurt hann þekki sig. Hann segir já; hann spyr hvurt það sé ekki stúlkan sem hafi hengt kápuna sína á þilið fyrir framan sig á jólanóttina. Hún segir jú. Hann segist hafa skellt stykki úr kápunni. Hún segist muna það og segist aldrei hafa verið í kápunni síðan. Drengur dregur þá stykkið upp úr vasa sínum og fær henni. Hún tekur við og spyr hvurt hann vilji ekki koma inn með sér. Hann segir nei; hann segist verða drepinn. Hún segist skuli sjá til þess að enginn sjái hann. Hún bregður yfir hann hendinni og leiðir hann inn í eitt lítið hús. Þar sér hann stóran skáp fullan af bókum. Hún segir honum þá að faðir sinn sé sýslumaður. Þar næst tekur hún opinn skápinn, og sýnir honum bækur og segir honum að lesa í. Hún segir að það þurfi ekki annað en kunna þær til að verða sýslumaður. Hún segir að hann skuli læra til sýslumanns. Hún segist skuli hlýða honum yfir á hvurjum morgni. Hann gleðst mikið yfir þessu og er hjá henni um veturinn og kemur honum vel til sýslumanns, en um vorið fer hann í burtu. Þá segir hún að enginn viti um hann nema móðir sín og biður hann að koma aftur að hausti. Svo fer hann og er burtu um sumarið og ber nú fátt til tíðinda. En um haustið kemur hann aftur. En það er að segja frá heima hjá bónda að aldrei verður vart við þetta eftir að drengur er farinn og iðrar nú eftir að hann skyldi ekki lofa honum að vera lengur.

Nú víkur sögunni aftur til drengs að hann er um veturinn í góðu yfirlæti þangað til hann er búinn að læra. Þá segir hún að nú verði hann að fara og svo komi hann aftur og biðji sín. Hún fær honum hring og segir að ef hann hafi hann þá geti hann séð allt fólk sem sé í þessum klöppum. Svo fer hann, en að litlum tíma liðnum kemur hann aftur og hittir sýslumann á gangi og heilsar honum kurteislega. Sýslumaður spyr hann erindis. Hann kveðst vera kominn að biðja dóttir hans. Þá bregzt sýslumaður reiður við og spyr hvurt hann sé hálfviti og ætlar að reka hann í burtu. Í því kemur kona hans og spyr hvað sé um að vera. Sýslumaður segir henni allt saman. Hún segir honum hann skuli reyna hvað hann sé fróður. Sýslumaður spyr hvað hann hafi lært. Hann segir ætla að verða sýslumaður og fer þá sýslumaður að yfirheyra hann og reynist hann góður. Segir þá sýslumaður hafa heitið að gefa hvurjum þeim manni dóttir sína sem væri eins góður og hann, en hann sagðist hafa haldið að hann mundi trauðlega hitta hann, því hann sagði að enginn ætti eins góðar bækur eins og hann, en hann sagðist nú sjá að einhvurstaðar væru til eins góðar bækur og segist hann sjálfsagt gefa honum dóttir sína, og að litlum tíma liðnum er haldið brúðkaup þeirra, og það er sagt að hann hafi orðið sýslumaður eftir hinn, en áður hann dó skrifaði hann þessa sögu upp. – Endir.