Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Saga af Maurhildi mannætu

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sagan af Maurhildi mannætu

Á Stokkseyri bjó bóndi sá er Þorbjörn hét; kona hans hét Þorgerður. Þorbjörn átti bróður er Þorsteinn hét og var kaupamaður hjá bróður sínum og í húsmennsku á vetrum.

Það bar til eitt sinn að Þorbjörn segir að hann verði sjálfur að gæta túns síns því það hafi verið mjög ódyggilega passað hingað til, og um nóttina sér hann þrjú kið er stóðu á beit. Hann rekur þau í burt og hina nóttina vill hann ná þeim og biður bróður sinn að hjálpa sér, en Þorsteinn segir að hann skuli lofa þeim að vera í friði, því það muni lítið um þó þau bíti á túninu og þurfi hann ekki að vænta sinnar hjálpar. Þá verður bóndi reiður og hleypur með svipu að kiðunum og ber þau og lemur svo þau verða að hörfa úr túni bóndans. Þriðju nóttina fer bóndinn út að gæta túnsins og sér kiðin sem fyr. Hann fer inn og vekur konu sína og biður hana að fara á fætur og hjálpa sér að ná kiðum þessum er alltaf standi á beit í túni hans. Konan fer á fætur, og reka kiðin inn í hús og slátra síðan. Þorsteinn kemur þar að og spyr hvurju þau slátri. Bóndi segir það kið vera. Þorsteinn mælir þannig. „Þessa mun þig lengst iðra, því nú byrjar ógæfa þín“ – og gengur síðan burt.

Nú ber ekkert til tíðinda fyr en á jólum. Þorsteinn var vanur að halda jólagleði. Þá um jólanóttina gengur Þorsteinn út og heyrir óttaleg hljóð. Honum verður gengið að hesthúsi bónda og sér Þorbjörn bróður sinn þar. Þorsteinn spyr hvað að honum gangi; hann segir að lítill maður, allur krepptur og skakkur og nefndi sig Kuflung, og hann hafi hlaupið að sér og fellt sig og húðflett sig að mestu allan og hryggbrotið hest sinn er honum hafi þótt vænst um af allri sinni aleigu. Þorsteinn spyr bróður sinn að hvurt Kuflungur hafi ekkert sagt þá hann var búinn að veita honum þennan áverka. Bóndi svarar að hann hafi sagt að nú væri borgað fyrsta kiðið. „Það grunaði mig,“ segir Þorsteinn. Þorsteinn lyftir bróður sínum upp og ber hann heim og græðir hann svo hann er fullgróinn að mánuði liðnum.

Nú líður þetta sumarið og ber ekkert til tíðinda fyr en á jólum, þá heldur Þorsteinn jólagleði sem fyr og um nóttina þá verður honum reikað út úr stofu og heyrir óp mikið. Bróðir hans er sagt að hafi sofið í skála fram í bænum og þau hjón bæði. Þorsteinn skundar þangað og kallar: „Ert þú það, Þorbjörn bróðir?“ Þorbjörn segir svo vera því sá fjandans Kuflungur hafi stolið konu sinni og flett af sér húðina. „Sagði hann ekkert við þig?“ segir Þorsteinn. „Hann sagði,“ segir Þorbjörn, „að nú væru borguð tvö kiðin.“ Þorsteinn ber á hann smyrsli því hann var góður læknir, svo hann grær fljótt. Og þá hann er fullgróinn þá biður hann Þorstein bróður sinn að koma með sér og leita að konu sinni. Þorsteinn segir svo vera skuli ef hann megi ráða ferðum. Þorbjörn lofar því. Þeir fara af stað og upp dal nokkurn. Þeir ganga upp dalinn og þá þeir eru búnir að ganga nokkra stund, þá verður fyrir þeim holt mjög stórt. Þá segir Þorsteinn við bróður sinn: „Nú skalt þú ganga að norðanverðu við holt þetta, en ég geng að sunnanverðu.“ Þorbjörn segist vilja ganga að sunnanverðu. „Þá fer ekki eins og ég ætlaðist til“ segir Þorsteinn, „en gjörðu nokkuð, ef þú skyldir sjá konu þína þá mundu eftir því að tala til hennar og taka hana með þér.“ Nú skilja þeir; Þorbjörn fer að sunnanverðu við holtið og þá hann hefur gengið lengi nokkuð þá sér hann konu sína sitjandi á stól, en þá hann sér hana þá verður hann svo huglaus að hann hleypur burt án þess að tala til hennar, og hættir ekki fyr en við holtsendann og hittir þar bróður sinn. Þorsteinn spyr hann að ferðum sínum. Þorbjörn biður hann að spyrja sig ekki að slíku því hann hafi orðið svo hræddur að hann hafi ekki getað mælt hana að máli. Þorsteinn svarar: „Það grunaði mig og skulum við nú heim hverfa.“ Þeir ganga heim og ganga til hvílu og sofa af um nóttina. Um morguninn biður Þorbjörn bróður sinn að koma með sér aftur. Þorsteinn segir að hann skuli fara ef hann fái að ráða; Þorbjörn lofar því. Þeir ganga og koma að því fyrnefnda holti; þá vill Þorsteinn ganga að sunnanverðu við holtið. Þorbjörn segist sjálfur vilja fara þeim megin holtsins. Þorsteinn segir það illa fara, „og muntu aldrei ná konu þinni“. Þorbjörn biður hann að mæla manna armastan og skundar af stað. Þá hann hafði gengið langan veg og lengra en áður sér hann konu sína á stól sem áður. Hann biður hana að koma með sér og hleypur síðan burt án þess að bíða svars af henni. Hann kemur að holtsendanum og finnur bróður sinn þar. Hann segir honum eins og komið var. Þeir ganga heim og næsta morgun biður Þorbjörn Þorstein að fara með. Þorsteinn segir það óþarfa og fer þó með honum, og finna ekki og fara heim við svo búið.

Nú líður veturinn og sumarið og fram að jólum tíðindalaust. Þorsteinn hélt jólagleði sína sem vant var og um nóttina fer hann fram og heyrir mikinn hlátur og gleðilæti. Þorsteinn gengur á hljóðið og heyrir að það er fram í skála; hann kallar og spyr hvurt það sé Þorbjörn er hafi þessa kæti. Þorbjörn segir svo vera. Þorsteinn segir: „Hvað kætir þig nú bróðir?“ Þorbjörn svarar: „Þess[u] ollir blessaður Kuflungurinn, því hann gaf mér dálítið barn er mér þykir svo vænt um.“ Þorsteinn biður hann að lofa sér að sjá. Þorbjörn sýnir honum; Þorsteinn lítur á og segir: „Höggðu höfuðið af því helvítinu því arna, því af því muntu ólán og slys hreppa ef þú lætur það lifa.“ Þorbjörn biður hann að fara ef hann ekki vilji fara burt. Þorsteinn snýr til stofu og heldur áfram gleðileik til morguns.

Nú er að segja frá því að stúlkan vex upp þangað til hún er sex ára. Þá ber það til tíðinda að fjármaður Þorbjarnar hverfur svo enginn veit. Þorbirni þykir þetta kynlegt og lætur þó lítt á bera. Næstu jól gekk eins til, að fjármann hans vantar. Þá biður Þorbjörn bróður sinn að standa yfir fé sínu. Þorsteinn lofar honum því og þegar líður að jólum, þá ber það til tíðinda einn dag að Þorsteinn sér kvenmann fremur stórskorinn koma að sér og heilsa honum. Þorsteinn tekur henni og spyr hana hvur hún sé. Hún kveðst Maurhildur heita „eða þekkir þú ekki fósturdóttur Þorbjarnar bróður þíns?“ Þorsteinn segir: „Eigi hélt ég það, því alltröllslega lítur þú út.“ Maurhildur spyr hvurt hann ekki vilji reyna faðmtök við sig. Þorsteinn segist lítt kunna til glímu. Maurhildur hleypur að honum og þrífur í hann. Þorsteinn tekur á móti; þau glíma nokkra stund. Loksins lauk svo að þau skildu án þess að hvurugt gat fellt annað, en Þorsteinn hélt þá eftir svuntu Maurhildar; hún skundar heim án þess að láta nokkuð á bera. Þegar Þorsteinn kemur heim þá sér hann Maurhildi þar komna; hann kastar í hana svuntunni og biður hana að hirða eign sína og gengur síðan burt. Svo líður veturinn og ber ekkert til tíðinda.

Um vorið fær Þorsteinn sér jörð og fer að búa og giftist konu einni, en ekki er sagt hvað hún hét. Það er sagt að Þorsteinn réri á degi hvurjum til fiskjar og einn dag rær hann sem oftar. Þá hann var róinn þá kemur á þá svo mikill stormur að bátnum hvolfir og allir mennirnir drukkna utan Þorsteinn einn; hann syndir lengi og kemst loksins að skeri nokkru. Hann fer upp og gengur um það og finnur stóran stein. Þorsteinn gengur kringum steininn. Þar kemur út úr steininum dvergur og mælir þannin: „Ekki tókst Maurhildi að drepa þig, viltu ekki koma inn í bæ minn?“ Þorsteinn þakkar honum og biður hann að hjálpa sér heldur með að komast til lands. Dvergur dregur út úr steininum nökkva og segir: „Hér er bátur sem þú getur farið til lands á, en varaðu þig á því að umla ekki á leiðinni, því ef þú gjörir það þá sekkur hann.“ Þorsteinn lofar þessu og fer af stað, dvergurinn gaf honum öxi, en þegar hann á skammt til lands þá fer hann að raula fyrir munni sínum vísu og í sama bili sekkur nökkvinn, en Þorsteinn kafar til lands. Þar voru björg mikil er hann kom að. Hann gengur með björgunum og sér gjá mjög stóra, og öðrumegin gjáarinnar er stór hamar og upp á þeim hamri sat kvensnift heldur stórskorin. Hann þekkir strax kvenmanninn og sér þar Maurhildi mannætu, og er að naga utan af hauskúpu á manni. Hann læðist upp á hamarinn og heyrir hana vera að segja: „Fáir hafa notið betur bónda síns en ég.“ Þorsteinn hleypur að henni og heggur öxi í höfuð henni svo hún hraut fram af, og fer síðan heim.

Nú víkur sögunni að Stokkseyri þar sem Þorbjörn bjó. Þegar Þorsteinn bróðir hans var farinn frá honum þá er sagt að prestur nokkur sem ekki er nafngreindur hafi beðið Maurhildar og fékk hennar og bjó að Stokkseyri. Það er mælt að þenna dag er Þorsteinn drap Maurhildi hafi prestur farið í einhvurjar erindagjörðir og þá hann kom heim aftur, þá er Þorbjörn hvorfinn og veit enginn um hann meir. Maurhildur biður mann sinn að fylgja sér; hún ætli að finna kunningja sína í nágrenninu. Prestur gerir sem kona hans biður og segir ekki meira af því utan það að Þorsteinn fann Maurhildi þar er hann kom að landi.

Nú víkur sögunni til Þorsteins að hann fer daginn eftir ofan undir björgin og finnur skrokkinn af Maurhildi og dysjar hann þar. Það er sögn manna að undir þeim björgum hafi verið mjög reimt síðan. Þorsteinn fer heim að loknum þeim starfa og stundar bú sitt og er sagt að hann hafi flutt að Stokkseyri og búið þar til elli. Endir.