Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sagan af Vestfjarða-Grími

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sagan af Vestfjarða-Grími

Sigurður hét maður er bjó á Skriðu þar sem síðan var klaustur sett; hann gat við konu sinni að nafni Helgu son er Grímur hét; hann var að fóstri á Vestfjörðum hjá móðurbróður sínum. Þessu samtíða bjó á Eiðum maður sá er Indriði hét með konu sinni Þóru.

Eitthvert sinn hvarf Sigurði kýr sú er Kráka var kölluð og vantaði hana í sex ár. Þá bar svo við er Sigurður gekk á fjall í sauðaleit að hann fann kúna í dalverpi nokkru ásamt sex öðrum nautum sem af henni lifnað höfðu; rak hann þetta heim til sín. Nokkru síðar kom Indriði frá Eiðum til Sigurðar og falaði af honum til kaups nokkurn hlut þessarra nauta, helming eður þriðjung, hverju þá Sigurður neitaði. Hóf Indriði tilkall til nautanna, segjandi að þau í sínu landi alizt og leyfislaust gengið hefðu. Á vorþingi kom þetta mál til greina meðal þeirra hvar Sigurður berorður varð við Indriða um þessi málaferli er honum þóttu af ranglæti rísa. Þessu reiddist Indriði og vo Sigurð þar á þinginu.[1] Þingmenn gripu Indriða þar strax. Bauð hann bætur fyrir vígið og lukti án dvalar (óvíst hverjum), slapp svo laus og fór heim til bús síns. Strax þar eftir breytti hann svo hvílu við konu sína að hann lá hverja nótt við vegg með kvenbúnað á höfði, en konan við stokk með slegið hár.

Svo liðu stundir þar til Grímur var sextán vetra gamall, þá bar svo við að fátæk kona kom að bæ þeim á Vestfjörðum er móðurbróðir hans á bjó; henni gaf Grímur eitthvað þar úr búinu, hverju húsfreyjan, hans móðurbróður kona, reiddist og meðal annarra atyrða við hann brigzlaði honum um að föður síns ekki hefnt hefði. Grímur tók svo eggjaninni að hann strax bjó sig til ferðar; mælti móðurbróðir hans vel fyrir honum og gaf honum að skilnaði auknafn, að Vestfjarða-Grímur heita skyldi. Grímur fór rakleiðis austur í átthaga sinn og dvaldist litla hríð hjá móður sinni áður svo við bar að hann fann þræl eður verkmann Indriða frá Eiðum rekandi kúna er fyrrum var um deilt og önnur fleiri naut þeirra mæðgina. Þenna drap Grímur svo sem þann er við þjófnað tekinn væri og lýsti víginu. Hér af tók Indriði heldur en eigi að ugga að sér og gjörði sér sterkliga lokrekkju. Nokkru síðar fór Grímur heiman og til Eiða; bar svo við að þá hann þangað kom sátu menn þar við eld og töluðu um konur í héraðinu dragandi fram sinn hverrar hluta. Í þessu tali hrósaði einn Helgu móður Gríms hvað einum hinna misþokkaðist, og lastmælti sá henni gífurlega. Grímur sem að kom heyrði þetta, hljóp inn í húsið og hóf þann upp er lastyrðin talað hafði og stakk honum á höfuð ofan í ketil er yfir eldinum var svo hann fekk þegar bana. Að því gjörðu hljóp hann út aftur og forðaði sér. Strax þar eftir tók hann sér fyrir hendur að grafa leyniliga jarðhús eður undirgang undir bæinn á Eiðum frá einum læk er hann lét bera í burtu moldina.

Svo leið að jólum; bauð þá Indriði til veizlu vinum sínum og þar á meðal bróður sínum er Helgi hét. Að kvöldi er menn gengu til hvílu var Helgi lagður í lokrekkjuna þá enu sterku, en Indriði og kona hans lögðust í sæng aðra þar nærri; hvíldu og margir aðrir í sama húsi. Grímur hafði njósnað um allt þetta daginn fyrir og komst um nóttina inn í bæinn, gekk hljóðlega þangað sem Indriði og hans kona hvíldu og þreifaði fyrir sér til þess að ekki skyldi þar að vega sem ei vildi. Sem nú hans kalda hönd kom við brjóst konunnar talaði hún þar til við bónda sinn; uggði hann þá nálægð Gríms og ætlaði á sér að hreyfa. Í því lagði Grímur hann í gegn; sá hinn vegni kallaði og kvaðst særður vera til ólífis; hlupu þá menn upp og ætluðu að ná vegandanum, tók og einn á Grími og ætlaði að halda honum; kvað Grímur hann villast og lézt vera einn þeirra sem eftir vegandanum sækti. Svo sleppti hinn og komst Grímur nauðugliga út og á burt. Nú þóttist hann vita að sér mundi ekki í því fyrr áminnzta jarðhúsi fritt vera, ekki heldur við byggðir manna sökum eftirgangs Helga; tók því til ráðs að liggja við tjald á heiðum úti. Þess á milli merkti Helgi á Eiðum að þegar gengið var í bænum þar á Eiðum eða um kring hann hlunkaði undir; kom honum þá til hugar að rannsaka hvert þar ekki væri holt. Fann hann svo jarðhúsið og vistir Gríms þar inni, en sjálfur var Grímur á burt sem fyrr er sagt.

Nokkru síðar bar svo við að einn af Eiðsmönnum fór þar um er tjald Gríms stóð, elti Grímur þann mann og drap hann að eigi skyldi óvinum sínum njósnir bera; sá þó að ekki mundi duga að halda þar til langdvala, fór svo norður yfir fjöll og dvaldist um hríð hjá ekkju einni þar. Þess á milli sótti Helgi (er nú bjó á Eiðum) alstaðar eftir Grími og setti öll brögð til að ná honum, frétti og um síðir að hann mundi dyljast hjá fyrrnefndri konu. Kona þessi var berdreym og forspá; sagði hún Grími eitthvert sinn að Helgi mundi þar innan skamms koma og vísaði honum að vötnum nokkrum í landsuður, hvar hann sig af veiðiskap nært gæti þar til skip einhver af hafi kæmi undir Ingólfshöfða; ráðlagði hún honum þar að leita utanferðar, en voga ekki til langdvala hér í landi.

Svo fór sem konan hafði til getið. Helgi kom þar og spurði eftir Grími; sagði hún hann hefði að sönnu þar verið, en væri nú í burtu; sneri svo Helgi þaðan aftur erindislaus. Grímur fór sem honum var ráðlagt til vatnanna og gjörði sér þar skála, laufskála úr skógi er þar var nógur, og tók að veiða í vötnum. Svo bar til að það sem hann veiddi á daginn tók að hverfa á næturnar; hvað þá nokkrum sinnum skeð hafði vakti Grímur eina nótt, viljandi vita hverju það sætti. Um nóttina kom risi[2] einn og tók til veiðarinnar sem þar lá, lagði á herðar sér og gekk í burt aftur. Grímur veitti honum eftirför og lagði til hans með spjóti. Risinn hvataði þá ferð sinni og komst heim til hellirs þess er hann byggði, með spjótið í sárinu; þar var fyrir dóttir hans, hverri hann sagði um áverkann að Vestfjarða-Grímur hefði sér hann veitt og bað hana grafa sig þar í hellirnum, og því næst dó hann. Risans dóttir tók honum gröf þar í hellirnum sem hann hafði fyrir mælt, en þegar hún ætlaði hann þar í að leggja var gröfin of lítil; gafst hún svo þar upp við. Grímur hafði gengið á hæla risanum og sá hann og heyrði allt þetta, gekk síðan í hellirinn, og átaldi risans dóttir hann í fyrstunni fyrir dráp föður síns. Grímur huggaði hana svo sem hann gat og bauð henni að koma risanum í gröfina; hún þekktist það og hneppti hann risann með afli niður í gröfina og huldi síðan, gekk svo heim aftur í skála sinn.

Á næstu nótt gekk risinn aftur og kom til skálans og ásótti Grím. Grímur varðist svo draugurinn vann ekki á (kringumstæður sameignar þeirra eru úr minni fallnar). Deginum eftir fór Grímur til hellirsins, gróf upp aftur risann og brenndi hann á báli. Risans dóttir veitti honum enga mótstöðu, heldur alleina mælti um að vötn þau er Grímur nú við sat skyldu á ýmsum tíðum loga og brenna til auðnar skógana þá er þar voru um kring[3], hver hennar álög síðan hafa oftliga rætzt. Að þessu gjörðu kom Grímur svo sínu máli við risans dóttur að þau til samans tóku fé það er hellirsbúinn hafði átt og fóru þar með til vatnanna í skála Gríms og bjuggu þar saman vinsamliga til næsta vors. Þessu næst kom skip af hafi og lagði til hafnar við Ingólfshöfða, hvað þá er Grímur fekk að vita brá hann til utanferðar, kvaddi unnustu sína risans dóttur og fór til skips og kom sér þar fyrir. En áður en hann og risans dóttir skildu gaf hún honum belti hverju sú náttúra fylgdi að hann engri annarri konu unnað gæti.

Grímur fór utan sem til var ætlað og komu til Noregs; þá var konungur Haraldur Sigurðsson; með honum fekk Grímur sér vistar um veturinn. Að jólum hélt konungur veizlu ríkmannliga; bjó Grímur sig þá því fyrrtéða belti. Strax kom á hann ógleði og þráði hann jafnliga risans dóttur. Þetta fann konungur og spurði hann hverju gegndi, sagði hann þá konungi allt um sambúð þeirra risadóttur. Að vori gaf konungur honum skip á hverju hann til Íslands fara kynni til að sækja unnustu sína. Grímur hélt á haf og kom við Ingólfshöfða, gekk á land og fór til Grímsvatna (svo hétu þau síðan Grímur hafði þar vistum verið). Þar við vötnin fann Grímur risans dóttur og hjá henni sveinbarn er hún alið hafði meðan Grímur var í burtu og kenndi honum það nú. Það varð fagnafundur og bað Grímur hana með sér að fara; tóku þau svo barnið með sér og fé það allt er úr hellinum hafði áður í skálann flutt verið og fóru á burt. Þessu næst héldu þau til skips, létu í haf og náðu Noregi; tók risans dóttir þar kristna trú og skírn með barni þeirra. Nokkrum vetrum síðar fýstist Grímur að fara út til Íslands og staðnæmast þar. Bjóst hann því burt úr Noregi með konu sína, risans dóttur, og kom norðan að Íslandi að eyju einni; þar sté Grímur á land og bar af skipi; bjuggu þá í eyjunni risar einir eður bjargbúar; stökkti Grímur þeim á burt sumum, en drap suma og hreinsaði svo eyjuna; síðan setti hann þar byggð sína og juku þau risadóttir þar ætt þeirra. Eyin liggur út frá Eyjafirði og heitir síðan Grímsey; bjuggu ættmenn Gríms þar eftir hann og lýkur svo þessari frásögn.

  1. Rannveig Oddsdóttir frá Holti undir Eyjafjöllum sagði mér, Árna Magnússyni, fyrst um þessa sögu að hana í barndómi sínum hefði heyrt sagða af fyrrskrifuðum Atla þá í Holti stöddum og hafði hún að mestum hluta gleymt því er þar úr heyrt hafði. Eftir því sem hana minnti sagði hún deiluefni föður Gríms og hans contraparts hefði verið nábúakrít um beit, en Atli segir það ei svo verið hafa og mun því misminni vera.
  2. Atli segir að risi þessi hafi vissu nafni verið nefndur í sögunni, en það sé sér úr minni fallið. Rannveig Oddsdóttir (eftir Atla) nefndi hann Hallmund; þykir Atla sig nú grilla til að svo muni verið hafa, vill það þó eigi fullyrða. Rannveig kallaði þann er af Grími drepinn var skógarmann; en það mun vera réttara sem Atli segir því kringumstæðurnar gefa það að skilja.
  3. Þetta á að skiljast um Grímsvötn sem enn nú svo kallast og eftir almennings meining þess á milli í eldi leika. Atli heldur þeirra afstöðu fyrir vestan og norðan Skeiðarárjökul þar uppi í jöklasundum langt úr byggð. Súla heitir vatnsfall er framan úr jöklum rennur fyrir austan Núpsvötn á Skeiðarársandi og fellur í sögð Núpsvötn. Um Súlu þessa segir Atli nokkurra munnmæli vera að hún úr Grímsvötnum renni; lætur hann það hverki logið né satt, en mér virðist það muni næsta óvíst vera.