Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Selmatseljan
Selmatseljan
Prestur var eitt sinn fyrir norðan sem hafði uppalið stúlkubarn. Frá prestsetrinu var selstaða langt á fjöllum uppi og hafði prestur þar jafnan fé og kýr á sumrum, ráðskonu og smala. Þegar fósturdóttir hans varð eldri varð hún selráðskona og fór henni það sem annað vel úr hendi því hún var ráðdeildarkvenmaður, fríð sýnum og vel að sér um marga hluti. Urðu því margir efnismenn til að biðja hennar því hún þótti hinn bezti kvenkostur norður þar, en hún hafnaði öllum ráðahags við sig.
Einu sinni kom prestur að máli við uppeldisdóttur sína og hvatti hana mikillega að giftast og taldi það til að ekki yrði hann ætíð til að sjá henni farboða þar sem hann væri maður gamall. Hún tók því allfjarri og kvaðst öngvan hug leggja á slíkt og sér þætti vel sem væri og ekki sækti allir gæfu með gjaforðinu. Skildu þau að svo mæltu um hríð.
Þegar á leið veturinn þótti mönnum selráðskonan þykkna undir belti og fór þykktinni því meir fram sem lengur leið á. Um vorið kom fóstri hennar aftur að máli við hana og bað hana segja sér frá högum hennar og sagði hún mundi víst vera barnshafandi og að hún mundi ekki í selið fara það sumar. Hún neitaði þverlega að hún væri eigi einsömul og kvað sér ekki til meina og selstörf skyldi hún annast eins það sumar og áður. Þegar klerkur sá að hann kom engu áleiðis við hana lét hann hana ráða, en bað menn þá er voru í selinu með henni að ganga eigi nokkru sinni frá henni og hétu þeir honum góðu um það.
Síðan var flutt í selið og var ráðskonan [hin] kátasta. Leið svo fram um hríð að ekki bar til tíðinda. Selmenn höfðu sterkar gætur á ráðskonunni og létu hana aldrei eina.
Eitt kvöld bar svo við að smalamanni var vant alls fjárins og kúanna. Fór þá hvert mannsbarn úr selinu nema ráðskonan var ein eftir. Sóttist leitarmönnum seint leitin og fundu eigi féð fyrr en undir morgun með því niðþoka var á. Þegar leitarmenn komu heim var matselja á fótum og venju fremur fljót á fæti og létt á sér. Það sáu menn og þegar frá leið að þykkt hennar hafði minnkað, en ekki vissu menn með hverju móti og þótti mönnum að þykktin hefði verið annars kyns þykkt en barnsþykkt. Var svo flutt úr selinu um haustið heim bæði menn, fénaður og söfnuður. Sá prestur þá að matseljan var mjóslegnari um mittið en hún hafði verið veturinn áður. Gekk hann þá á hina selmennina og spurði þá hvort þeir hefðu brugðið af boði sínu og gengið allir frá selmatseljunni. En þeir sögðu honum svo sem var að þeir hefðu alls einu sinni frá henni farið að leita því alla málnytuna hefði vantað. Klerkur reiddist og bað þá aldrei þrífast sem breytt hefðu boði sínu og kvað sig hafa grunað þetta þegar selmatseljan fór í selið um vorið.
Veturinn eftir kom maður að biðja fósturdóttur prestsins og tók hún því allfjærri, en prestur sagði hún skyldi ekki undan komast að eiga hann því hann hafði almenningslof á sér og var góðra manna. Hann hafði tekið við búi eftir föður sinn um vorið og var móðir hans fyrir framan hjá honum. Varð svo þessum ráðahag framgengt hvort konunni var það ljúft eður leitt. Um vorið var brullaup þeirra hjá presti. En áður en konan klæddist brúðfötum sínum sagði hún við mannsefnið: „Það skil ég til við þig fyrst þú átt að ná ráðahag við mig að mér nauðugri að þú takir aldrei veturvistarmenn svo að þú látir mig ekki vita áður, því ella mun þér ekki hlýða,“ og hét bóndi henni því. Leið svo af veizlan og fór hún heim með bónda sínum og tók til búsforráða, en þó með hangandi hendi því aldrei var hún glöð eða með hýrri há en þótt bóndi hennar léki við hana á alla vegu og vildi ekki láta hana taka hendi í kalt vatn. Hvert sumar sat hún inni þegar aðrir voru að heyvinnu með bónda og tengdamóðir hennar hjá henni til að skemmta henni og annast um matseld með henni. Þess á millum sátu þær og prjónuðu eður spunnu og sagði eldri konan tengdadóttur sinni sögur til skemmtunar.
Eitt sinn þegar gamla konan hafði lokið sögum sínum sagði hún við tengdadóttur sína að nú skyldi hún segja sér sögu. En hún kvaðst engar kunna. Hin gekk því fastara á hana svo hin hét þá að segja henni þá einu söguna sem hún kynni og hóf þannig frásögu sína:
„Einu sinni var stúlka á bæ; hún var selmatselja. Skammt frá selinu voru hamrar stórir og gekk hún oft hjá hömrunum. Huldumaður var í hömrunum fríður og fallegur og kynntust þau brátt við og varð þeim allkært saman. Hann var svo góður og eftirlátur við stúlkuna að hann synjaði henni einkis hlutar og var henni til vilja í hvívetna. Fóru þá svo leikar þegar fram liðu stundir að selmatseljan var eigi einsömul og gekk húsbóndi hennar á hana með það þegar hún átti að fara í selið sumarið eftir, en stúlkan neitaði áburði þessum og fór í selið sem hún var vön. En húsbóndinn bað þá er í selinu voru með að fara aldrei svo frá henni að hún væri ein eftir og hétu þeir honum góðu um það. Eigi að síður fóru allir frá henni að leita fjárins og þá tók hún léttasóttina. Kom þá maður sá til hennar er hún hafði haft samræði við og sat yfir henni og skildi á milli, laugaði barnið og reifaði. En áður hann fór á burtu með sveininn gaf hann henni að drekka af glasi og það var sá sætasti drykkur sem ég hef,“ .... í því datt hnoðað úr hendinni á henni sem hún var að prjóna af svo hún laut eftir hnoðanu og leiðrétti – „sem hún hafði smakkað, vildi ég sagt hafa, svo hún varð á samri stundu alheil allra meina. Upp frá þeirri stundu sáust þau ekki stúlkan og huldumaðurinn, en hún giftist öðrum manni sárnauðug því hún þráði svo mjög hinn fyrra ástmann sinn og sá aldrei upp frá því glaðan dag. Og lýkur hér þessari sögu.“
Tengdamóðir hennar þakkaði henni söguna og setti hana vandlega á sig. Fór svo fram um hríð að ekki bar til tíðinda og konan hélt teknum hætti um ógleði sína, en var þó góð við mann sinn.
Eitt sumar þegar mjög var liðið á slátt komu tveir menn, annar stærri en annar, í teiginn til bónda. Báðir höfðu þeir síða hetti á höfði svo óglöggt sást í andlit þeim. Hinn meiri hattmaður tók til orða og bað bónda veturvistar. Bóndi kvaðst ekki taka nokkurn mann á laun við konu sína og kvaðst hann mundi hitta hana að máli áður en hann héti þeim vistinni. Hinn meiri maður bað hann ekki mæla svo óvirðuglega að slíkur höfðingi ætti það konuríki að hann væri ekki einráður að slíkum smámunum sem að gefa tveimur mönnum mat einn vetrartíma svo það verður að ráði með þeim að bóndi hét mönnum þessum veturvist að konu sinni fornspurðri. Um kvöldið fara komumenn heim með bónda og lét hann þá fara í hús nokkurt fram í bænum og bað þá þar vera. Bóndi gengur [til] húsfreyju og segir henni hversu nú var komið. Húsfreyja snérist illa við og sagði þetta hina fyrstu bæn sína og að líkindum þá seinustu. En fyrir því að hann hefði einn við mönnunum tekið þá skyldi hann og einn fyrir sjá hvað hlytist af veturvist þeirra, og skildu svo talið. Var nú allt kyrrt þangað til húsfreyja og húsbóndi ætluðu til altaris um haustið. Það var venja þá sem enn er sumstaðar á Íslandi að þeir sem ætla sér að vera til altaris ganga fyrir hvern mann á bænum, kyssa þá og biðja þá fyrirgefningar á því sem þeir hafi þá styggða. Húsfreyja hafði allt til þessa forðazt veturvistarmennina og aldrei látið þá sjá sig og svo var og að þessu sinni að hún kvaddi þá ekki. Svo fóru hjónin af stað. En þegar þau voru komin út fyrir túngarðinn sagði bóndi við húsfreyju: „Þú hefur sjálfsagt kvatt veturvistarmennina.“ Hún kvað nei við. Hann bað hana ekki gjöra þá ófhæfu að fara svo hún kveddi þá ekki. „Í flestu sýnir þú að þú metur mig lítils, fyrst í því að þú tókst við mönnum þessum að mér fornspurðri og nú aftur þar sem þú vilt þröngva mér til [að] minnast við þá. En ekki fyrir það, ég skal hlýða, en þú skalt fyrir sjá því þar á ríður líf mitt og þitt með að líkindum.“ Hún snýr nú heim og seinkar henni mjög heima. Bóndi fer þá heim og kemur þangað sem hann átti von á veturvistarmönnum og finnur þá í herbergi þeirra. Hann sér hvar veturvistarmaður hinn meiri og húsfreyja liggja bæði dauð í faðmlögum á gólfinu og höfðu þau sprungið af harmi. En hinn veturvistarmaðurinn stóð grátandi yfir þeim þegar bóndi kom inn, en hvarf í burtu litlu síðar svo enginn vissi hvert hann fór. Þóttust nú allir vita af sögu þeirri er húsfreyja hafði sagt tengdamóður sinni að hinn meiri komumaður hefði verið huldumaður sá sem húsfreyjan hafði kynnzt við í selinu og hinn minni sonur þeirra, sem á burt hvarf.