Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sifa nátttröll

Sifa heitir klettur einn í konulíki er stendur upp á hjallanum fyrir ofan Hvamm í Vatnsdal; er það tröllkona ein, orðin að steini. Í fyrndinni bar svo við að prestur var að messa þar í bænahúsi á jólanótt; stóð bænahúsið fram á hlaðinu og hafði Sifa reiðzt klukknahringingunum um kvöldið; gekk hún þá um nóttina fram á hjallann og skaut stafi sínum á kirkjuna; ætlaði hún þannig að brjóta kirkjuna, en drepa prestinn og alla sem inni voru. En stafurinn brotnaði á fluginu. Liggur annað brotið milli fjalls og túns og er það bjarg mikið, en hitt lenti á hlaðinu og er síðan haft fyrir hestastein. Í þessum svifum varð skessunni litið við og sá dagsbrún í austri; varð hún þá að steini þar sem hún stóð.

Dr. Maurer hefur og þessa sögu, en þar er tröllkona kölluð Sefa. Hann getur þess og að skammt þaðan sé annar steinn sem hafi og verið tröllkona og heiti sá steinn enn Skinnhetta eða Skinnhúfa, en ekki hafi hann getað orðið fleira vís um hana.