Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Sjómaðurinn á götum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sjómaðurinn á Götum

Svo er sagt að fyrrum hafi bóndi nokkur búið á Götum í Mýrdal og reri hann um vertíðina þar sem að fornu og nýju hefur verið tíðkað, nefnilega við Dyrhólaey.

Eitt sinn sem oftar kom bóndi frá sjó; er þá að fara yfir mýrar. Hann kemur þar að í hálfdimmu sem maður hafði hleypt niður hesti sínum og gat ekki náð honum upp hjálparlaust. Ekki þekkti bóndinn þennan mann, en hjálpar honum þó til að draga upp hestinn. Þegar það er búið segir hinn ókunni maður: „Ég er nábúi þinn því ég bý inn í Hvammsgili og kem nú frá sjó eins og þú, en svo er ég fátækur að ég get ekki borgað þér þetta handtak eins og maklegt væri, en þau þægilegheit skaltu hafa ef þú fer mínum ráðum fram að þú skalt aldrei fara til sjávar fyrr en þú sérð til mín, og mun það þá ekki bregðast að þú munt jafnan róa þegar þú ferð ef þú bregður ekki af þessu.“ Bóndi þakkar honum þetta ráð.

Liðu þá svo þrjú ár að Gatnabóndinn fór ekki nema þegar hann sá til nábúa síns og fór aldrei forgefins ferð og sat aldrei af sér. En þegar þrjú ár voru liðin bar svo til einn dag að strax um morgun var blíðasta sjóveður og fóru allir strax til sjávar, en bóndi sá ekki nábúa sinn fara og beið hann þó lengi. Loksins stóðst bóndinn ekki lengur, heldur fór hann án þess nábúi hans kæmi. En þegar bóndi kom til sjávar voru öll skip róin. Þennan dag barst öllum skipunum á, en bónda sakaði ekki því hann náði engum um morguninn.

En um nóttina dreymdi bónda nábúa sinn og talaði hann þessum orðum við bónda: „Þú hafðir þó það gott af mér að þú fórst ekki í sjóinn í dag, en fyrir það að þú fórst án þess að þú sæir til mín þá skaltu nú ekki þurfa að bíða mín hér eftir því ég ætla ekki að láta þig sjá til mín framar fyrst þú fylgdir ekki mínum ráðum.“ Enda sá bóndi aldrei til nágranna síns oftar.