Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skálmarbjarg á Látraströnd

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skálmarbjarg á Látraströnd

Skammt fyrir utan Látur austanvert við Eyjafjörð eru sjóarhamrar hér um 80 faðma háir og nokkur hundruð faðma á lengd. Sagt er þetta hafi verið fuglberg til forna, en nú sést þar ekki eitt fljúgandi fiðrildi að kalla má. En hér til ber sú saga:

Meðan fugl var í bjarginu var það eitt sinn á hvítasunnumorgun að farið var að síga í það og var þó sigamaðurinn mjög nauðugur, en þegar sig voru byrjuð kom skálm út úr bjarginu og skar í sundur festarþættina alla nema einn sem sigamaður gat bjargað sér upp á. Í sama bili og þetta skeði tók allur fugl sig í háa loft úr bjarginu, flaug í burt og kom ekki aftur. Hefir heldur aldrei síðan orðið fuglvart í því bjargi, en bjargið er síðan kallað Skálmarbjarg. – Það er augsýnilegt að bergrisinn sem festina skar hefir ekki verið hundheiðinn hvernig sem svo aðrir bergrisar eru.

Undir bjarginu er urð sem svo er til komin að einu sinni rak hval undir bjarginu; fóru menn þá á hvalfjöruna og lentu þar í rifdeilum og illindum. Hljóp þá stórt hraun fram úr bjarginu og gróf undir sér bæði hvalinn og mennina.