Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessan á Arnarvatnsheiði og vermaðurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Skessan á Arnarvatnsheiði og vermaðurinn

Einu sinni voru vermenn á suðurferð; þeir fóru Arnarvatnsheiði. Þegar þeir komu suður á heiðina hrepptu þeir norðan-kafaldsbyl svo þeir villtust. Héldu þeir lengi áfram í villu þangað til þeir að áliðnum degi hittu fyrir hellir; þar fóru þeir inn og settust að. Þegar þeir voru komnir þar fyrir lítilli stundu sjá þeir hvar tröllskessa kemur þar að dyrunum með silungskippu á bakinu. Þegar hún sér hverjir gestir eru komnir leggur hún niður byrði sína og stendur úti þegjandi. Sjá þeir þá hún vogar sér ekki. Þeir fara þá að hliðra sér til og segja henni óhætt að fara inn. Hún var kurteis í látbragði, að þeim þótti lagleg ásýndum þó hún væri stórvaxin, og ungleg. Þegar hún sér hversu tilhliðrunarsamir þeir eru tekur hún upp byrði sína og ber inn á hellisgólfið, skilur hana þar eftir og fer eitthvað lengra inn í hann. Að lítilli stundu seinna kemur hún fram og fer að slægja silunginn, en ekki hefur hún neinn hnífinn, heldur klípur höfuðin af milli fingra sér og slægir með þeim líka. Einn mannanna tók þá hníf upp hjá sér og atlar að fá henni, en hún tekur ekki við honum fyrr en hann tekur einn silunginn og slægir. Sér hún þá til hvers hann þénar og tekur feginlega á móti honum og slægir með honum sem eftir er og fer svo inn aftur. Þá segir einn vermannanna til félaga sinna að sér sýnist ráðlegt að fara inn til skessunnar að skoða bústað hennar; sér muni líka vera eins gott að sofa inni hjá henni í nótt eins og að hírast frammi í kuldanum hjá þeim. Hann fer síðan inn. Ekki sér hann þar neitt fleira en hana eina. Hann spyr hana hvert hún sé þar ein manna. Hún segir að svo sé; hafi foreldrar sínir búið í þessum helli og séu nú bæði dauð, faðir sinn fyrir löngu, en móðir sín sé nýlega dáin. Hann segir því hún hafi ekki fengið sér neinn trölla til að búa með eða hvað komi til hún sé ekki gift, ung og álitleg. Hún segir að ekki sé um slíkt að tala þar sem sé svo kallalaust að ekki sé nema tveir á öllu landi, báðir nær því karlægir af elli, sé því auðsjáanlegt að öll tröll muni innan skamms út deyja, en þær séu fimmtíu að tölu og fáar svo auðugar að þær geti keypt sér getnað, því það kosti mikið fé og meira en aleigu margra. Býður hann henni að sofa hjá henni um nóttina. Hún kveðst halda honum verði það að litlu gagni. Ekki kveðst hann trúa því. Verður hann þar hjá henni um nóttina og segir ekki neitt af þeim annað en þau yndi vel hag sínum. Hún gaf þeim öllum silung að borða um morguninn áður þeir fóru á stað og sagði þeim til vegar á rétta leið. Á leiðinni suður sagði hann þeim frá viðræðum þeirra skessunnar og hans, en ekki sagði hann þeim af húsbúnaði hennar og efnahag. Eftir það gaf þeim vel suður og réru þar út vertíðina eins og ákveðið var. En nálægt vertíðarlokum hvarf sá sem var hjá skessunni um nóttina svo enginn vissi hvað af varð, en öllum þótti gáta sú líklegust að hann hefði farið til skessunnar því einhverjir kváðust hafa heyrt að hann hefði eitthvað þvíumlíkt látið á sér heyra.