Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessan á Hvannadal

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skessan á Hvannadal

Í dal þeim er liggur vestur af Selárdal í Strandasýslu og Hvannadalur heitir er mælt að tröllskessa hafi sézt á fyrri tíðum og gjörði hún ferðamönnum mikinn óskunda; og sýnir það sögn sú er á eftir kemur:

Einu sinni á fyrri öldum lögðu tólf menn á Trékyllisheiði, kom enginn þeirra aftur til mannabyggða, en föt þeirra fundust sundur rifin og hendur af sumum, og var vegurinn því af tekinn og lagður annarstaðar. Munnmæli segja að eitt sinn hafi menn séra Jóns Pálssonar sem prestur var á Stað snemma á 18. öld[1] verið að leita fram á Hvannadal tíu sauða, er hann vantaði; fundu þeir þá og eltu lengi unz þeir sáu tröllkonu fremst í dalnum. Urðu þeir felmtsfullir er þeir litu skessuna, og slepptu sauðunum; en hún tók þá og rak til byggða sinna. Menn prestsins urðu fegnir er þeir komust lífs undan, en ávallt þykir reimt á Hvannadal.

  1. Frá 1739 - 1767, d. 1771.