Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Skessan og vermaðurinn
Skessan og vermaðurinn
Einu sinni fór einn Norðlendingur ferða sinna til aflafanga á Suðurnes. Fór hann stytzta veg nálægt Arnarvatnsheiði og gjörði þoku með illviðri og kom yfir hann villa svo hann vissi ekki hvar hann var áleiðis. Urðu fyrir honum jöklar og óvegir. Fann hann loks við björg hellir sem hann fór inn í og þókti nú vel úr ráðast hvað sem eftir kæmi. Tók hann bagga sína ofan og gaf hestum sínum hey. Fór hann að leita lengra inn og sá skímu innar frá sér og ámátlegt ýlfur. Fór hann – nokkuð óttasleginn – að gá betur að; sá hann þá pott á hlóðum og barn í fleti ekki ásjálegt. Fór hann til baka, leysti til mals síns, tók stykki af kjöti og færði krakkanum. Það fór að naga bitann og þagnaði. Gengur hann burt til hesta sinna; fyllir þá eitthvað hellirsdyrnar og verður honum bilt við. Kemur þar inn skersa mjög stór með silungakippu stóra á baki og gengur inn hjá hestunum og kastar af sér byrðinni heldur óstefnlega og steðjar inn til krakkans, kemur aftur með stilltara fasi og þakkar honum fyrir krakkann sinn, býður honum að koma nær hlýindum og tala við sig. Hann gjörir svo. Tekur þá kerling heila silunga og lætur í pottinn. Hann sagði henni farast óverklega; tók hann þá einn silunginn og slægir hann og lætur hann brytjaðan í pottinn. Hún kvaðst ekkert eggjárn eiga; hann gefur henni fiskkníf sinn og þókti henni vænna um en þótt gull væri. Þegar soðið var gaf fála honum nógan silung því [hún] kvaðst verða að veiða á hvurjum degi, annað væri ekki til að lifa á. Svo var hann hjá henni í þrjár nætur og fór þá að búa sig til ferða, en kerling sagði honum nú mundi koma harður vetur; skyldi hann – þegar hann kæmi á Suðurnes – sleppa hestum sínum í eitt pláts sem hún tilnefndi og hugsa ekki um þá fyr en á krossmessu, þá skyldi hann vitja þeirra á sama stað. Hann gjörði þetta og fann þá svo feita að þar fundust ekki hestar svo feitir þó gefnir væri eða aldir við hús.