Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Smalastúlkan og áfaaskurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Smalastúlkan og áfaaskurinn

Einu sinni bjó ríkur bóndi á bæ og hélt smalastúlku. Eitt sinn eitt sumar fer hún að smala eins og vant var og finnur hún ekki nema helminginn af ánum. Fer hún þá ennþá lengra og dettur þá yfir hana þoka. Hún sezt þá framan í eina hábrekku til að vita hvort þokunni létti ekki upp og heyrist henni þá skökuhljóð. Hún óskar að hún ætti áir að drekka – því hún var bæði þyrst og svöng – og líka að hún fyndi fé og kýr, og sígur þá á hana svefn. Hana dreymir að bláklæddur kvenmaður kæmi til hennar og kemur með ask og segir henni að drekka úr hönum, hún hafi áðan verið að óska að hún ætti áir. Ærnar sagði hún væri skammt frá, en kýrnar væri hér fremst í einum dal er hún til tók, en sínar væri skammt frá og skyldi hún reka þær með, þær mundu skilja sig þegar þær kæmu upp undir brekkuna, og þá vaknar hún og er þá hjá henni fullur askur af áum. Hún krossar yfir hann og drekkur úr hönum, lætur so vettlingana sína í hann og leggur í sama stað og hann áður var. Léttir þá upp þokunni. Finnur hún þá féð og kemur því til rása og líka finnur hún kýrnar sínar, en hugsar samt að hún skuli leita vel um allan dalinn og siga og fer þegar til þess. Heyrist henni þá eitthvað fleira vera komið í kúahóp sinn en hún átti von á. Rekur hún so allt að þessari brekku og heyrir hún þá ekkert skrölt, heldur so heim með kýr og fé. Um morguninn eftir fer hún að smala aftur og gáir að hvort askurinn sé kjur; er hann þá allur í burtu og eins vettlingarnir og er sagt að hún hafi setzt þar oftar þegar hún var að smala og fengið að drekka og alltaf hafi hún látið eitthvað í ílátið aftur og hafi það jafnsnart hvorfið. Hóllinn var síðan kallaður Álfahóll. Endar so þessi saga.