Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Smalastúlkan og mjólkuraskurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Smalastúlkan og mjólkuraskurinn

Einu sinni var stúlka um tvítugsaldur að smala í logni og sólskini; hún var bæði þreytt og þyrst. Gengur hún þá hjá stóru klettabelti; henni heyrist mannamál og strokkhljóð inn í einum klettinum í beltinu. Hún óskar sér þá að hún ætti mjólkursopa úr strokknum þeim arna til að svala sér á, en stendur þó ekki við og heldur áfram. En þegar hún var komin spölkorn frá klettinum réði hún sér ekki fyrir forvitni að vita hvert hún heyrði nú eða sæi nokkuð í klettinum, og sneri því þangað aftur. Þegar hún kemur aftur að klettinum heyrir hún ekkert, en sér að hjá honum stendur askur allur útskorinn með eirseymdum gjörðum. Hún lauk honum upp og sá að hann var fullur af mjólk; hún þorði ekki að drekka þó hún væri þyrst og lét askinn sem fljótast aftur og hljóp í burt. Þó leit hún aftur og sér að unglegur maður stendur hjá klettinum og heldur á askinum og bendir henni að koma; þá varð hún enn hræddari og flýtti sér sem mest hún mátti í burt og forðaðist eftir það að koma að þessum sama kletti, en sagði þó ekki frá þessu fyrri en löngu seinna.