Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Snotra

Þess er getið að eitt sinn í fyrndinni kom að Nesi í Borgarfirði austur kona ein tígugleg mjög sem enginn vissi deili á. Hún settist þar að og þótti æ meira til hennar koma þess betur menn fengu að þekkja hana. Hún náði þar fljótt búráðum og varð eigandi Ness, en ekki er getið hvörnig á stóð á Nesi þá hún kom þar; hún fékk sér ráðsmann með sér yfir búið og setti á við hann að hann segði sér hvar hún yrði næstkomandi jól því hún kvaðst fara að heiman og verða burtu um jólin. Hann kvaðst ekki mundi geta það. Hún sagði það riði á lífi hans, gæti hann ekki sagt sér þetta, en gæti hann það, mundi hún góðu launa honum.

Svo leið tíminn að jólum, en á aðfangadagskveldið bjóst Snotra að heiman, en enginn vissi hvört hún fór. Að liðnum jólunum kom Snotra aftur, gekk til ráðsmanns síns og spurði hvort hann gæti nú sagt sér hvar hún hefði verið um jólin. Hann kvað nei við. Eftir þetta hvarf hann og vissi enginn hvað af honum varð. Svona gekk fyrir öðrum og þeim þriðja sem til hennar fóru. Hún hafði sömu skilmála við alla ráðsmenn sína. En þetta var vani hennar að hún hvarf burtu um hvör jól og spurði alla ens sama, en enginn þeirra gat sagt henni þetta. Hvurfu þeir svo allir. Seinast fór einn til hennar; hún setti sama á við hann. Hann sagðist skyldi segja henni það ef hann gæti.

Nú leið að jólum og á aðfangadagskveldið undir dagsetur fór Snotra að búast að heiman eftir vana, en verkmenn lögðust til svefns í skála. Ráðsmaðurinn vakti og hafði nærri njósnina þá Snotra fór út úr bænum, dró sig á eftir henni til að sjá hverja leið hún legði. Hann sá hún lagði leið ofan túnið til sjóar og hélt á einhvörju undir hendi sér; hann læddist á eftir henni. En þegar hún kom ofan á sjóarklappirnar, þá settist hún niður, tók böggulinn sem hún bar undir hendinni og rakti hann sundur. Hann sá að þetta var ljóslit blæja því hann var innar frá henni á bakkanum. Þegar hún leit hann fleygði hún til hans annari blæjunni, en steypti yfir höfuð sér hinni sem hún hélt á og fleygði sér svo í sjóinn. Hann gjörði hið sama með mesta hraða, fór á eftir henni og gat náð í hornið á blæjunni á baki hennar. Liðu þau svo líkt sem í reyk eða móðu nokkurn tíma þar til þau komu að landi mjög fögru. Þar gekk Snotra á land og lagði af sér blæjuna í afvikinn stað og gekk svo upp á landið. Hann gjörði hið sama, tók af sér blæju sína, braut saman og lagði ofan á hennar, hélt svo á eftir henni. Hann sá að landið var óvenjulega fagurt, vaxið ilmjurtum og ávaxtatrjám og þá lengra kom sá hann aldingarða víðs vegar frá sér; því næst sá hann fyrir þeim borg mjög skrautbúna, vóru múrar umhverfis; en þá hún kom undir borgarhlið gengu móti henni menn margir með hljóðfæraslætti og tóku í hönd henni, en hún leit við honum og benti að hann skyldi stefna þangað sem tvær háreistar byggingar stóðu nær því saman, en þó lítið bil á milli. Þangað fór hann og fann þar bygging litla, og mátti úr henni ná upp að glugga einum sem var á miklu byggingunni þar nær við. Þarna hélt hann kyrru fyrir; fyrsta kveldið fór hann upp að glugganum og sá þar inni viðhöfn mikla, allt uppljómað af ljósum og mikinn fjölda af skrautbúnu fólki sem lék ýmsa dansleika með hljóðfæraslætti og alls konar gleðilátum. Í hásæti sá hann tíguglegan mann, og Snotru þekkti hann við hlið hans í drottningarskrúða; á þessu furðaði hann. Þarna stóð hann við gluggann þar til hætt var dansleiknum, tekið af borðum og gengið burtu úr salnum. Þá hann var kominn til náða kom ung kona til hans með mat. Hin sama bar honum mat og drykk meðan hann var þarna. Upp að glugganum fór hann á hverju kveldi og sá ætíð hið sama, skraut mikið og gleði og þau í hásæti. En síðasta kveldið sem hann stóð við gluggann komu menn inn og báru fyrir þann sem í hásætinu sat að kýr ein í staðnum hefði borið tveimur kálfum og hefði annar kálfurinn verið dauður þá að var komið. Tvær konur hefði átt að sjá um kúna og kenndi hvor annari um dauða kálfsins. Út úr þessu varð deila mikil þeirra á milli. Við þessa sögu varð höfðinginn reiður mjög.

Að liðnum jólunum varð ráðsmaður Snotru var við að búizt var við brottför hennar. Fylgdi henni úr höllinni múgur og margmenni með hljóðfæraslætti. Leiddi höfðinginn hana við hönd út úr salnum og skildi þar við hana með trega miklum; hélt hún svo sömu leið til baka að móðunni og ráðsmaður hennar á eftir. Tók hún svo blæjuna og fleygði yfir sig; hann gjörði hið sama og fylgdi henni fast á eftir. Liðu þau svo eins og í þoku, unz þau komu að landi í sama stað og þau fóru frá. Tók hún af sér blæjuna og braut saman. Hann gjörði svo líka og kastaði til hennar. Hún talaði ekkert, en gekk heim, hann á eftir og til skála og svaf til morguns. Verkmenn fóru á fætur eftir vana og til verka, en hann lá einn eftir. Þá kom Snotra inn til hans og bauð honum góðan dag og spurði hvört hann gæti nú sagt sér hvar hún hefði verið um jólin. Hann kvaðst ekki vita það, „en,“ sagði hann,

„deildu tvær um dauðan kálf,
drottning mín, það veiztu sjálf;
ógurlegt var orðagjálfur,
yfrið reiður varð kóngurinn sjálfur.“

„Hafðu þökk fyrir,“ kvað Snotra, „nú hefur þú leyst mig úr álögum; ég var hrakin frá manni mínum og lagt á mig, að ég skyldi aldrei hjá honum geta verið utan um hvör jól nema einhvör fyndist sá sem gæti sagt mér hvar ég dveldi á jólum. Þú einn varðst til þessa; fyrir það gef ég þér bú mitt allt og bújörð, og muntu gæfumaður verða.“ Eftir þetta hvarf Snotra og sást ekki síðan. Var jörðin kennd við hana og kölluð Snotrunes.