Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlkan í Hvannstóði

Hvannstóð heitir bær einn innan til í Borgarfirði eystra. Þar bjuggu einu sinni hjón sem áttu eina dóttur. Hjá þeim var þar umkomulítil stúlka Björg að nafni. Eitt sinn bar svo til á jólanótt að hjónin og dóttir þeirra fóru til tíða, en Björg var heima. Og er þau vóru farin sópar stúlkan vandlega allan bæinn, síðan fer hún inn í afskekkt hús í baðstofunni, læsir því aftur, tekur bók og fer að lesa í henni. Að litlri stundu liðinni heyrir hún mikinn undirgang og þar næst gengur huldufólk margt inn í baðstofuna unz hún tekur ei meira. Þarna setur það niður borð og bekki og sezt við drykkju. Gengur svo allt til dags. Þá gengur kona ein mikil og tígugleg að húsdyrunum til Bjargar og mælti svo: „Lítið hefur þú haft við þig í nótt, kindin.“ Síðan fær hún henni disk fullan af alslags brauðmeti og sagði henni brauðanöfnin á þessa leið: ónbrauð, lómbrauð, lomkökubrauð og brauðgluggar og brauð sem hún kvaðst ei segja henni nafn á. Líka gaf hún henni þrjá silfurhnappa og bað hana að lóga þeim ekki. Síðan hverfur allt huldufólkið.

Nú koma hjónin og dóttir þeirra heim; hún sér brátt silfurhnappana (álfkonunaut) hjá Björgu og biður hana að selja sér, en hin vill ekki. Á jóladaginn fer Björg til kirkju og sér þá prestsdóttir hnappana hjá henni og biður hana selja sér, en hin er treg til. Þó verður um síðir að hún selur prestsdóttir þá fyrir hennar bezta klæðnað. Nú koma önnur jól og býðst þá bóndadóttir að vera heima, hugsar sér nú að verða ei heimafúl við gestina (huldufólkið), og sem það kemur í baðstofuna situr hún þar andspænis fyrir því. En um morguninn þá foreldrar hennar koma heim heyra þau til dóttur sinnar á milli þils og veggja og er hún þá ær vorðin og dó litlu síðar.