Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Stúlkan frá Reykhólum
Stúlkan frá Reykhólum
Fólk fór einu sinni á grasafjall á Reykhólum á fyrri öldum og hvarf ein stúlkan því að þoku mikla gjörði að því er það var í grasaleitinni. Fannst hún ekki allt sumarið. Var þá fjölkunnugur maður einn beðinn að grennslast eftir með töfralist sinni hvar hún væri niður komin og nema hana þaðan aftur og því fékk hann orkað, og er hún var heim komin lét húsbóndi hennar presturinn hana aldrei eina vera, en einhverju sinni vildi svo til að hún var send út í kirkju. En er skammt var um liðið vitjaði húsbóndinn hennar því hann grunaði margt, og er hann kom í kirkjuna var stúlkan horfin; litaðist þá búandi um og sá hvar maður reið í rauðum kyrtli og reiddi meyna fyrir aftan sig.
Svo leið nú og beið og enginn vissi neitt um stúlkuna, en einhverju sinni dreymdi prestkonuna á Reykhólum mann þann er stúlkuna hafði burt numið og bar hann henni kveðju konu sinnar með þeim fyrirmælum að skírt væri barn það er verða mundi í vöggu liggjandi fyrir framan kirkjudyr er hún vaknaði, en skrúð það er yfir vöggunni væri skyldi prestur eiga í skírnartoll. Húsfreyja vaknaði síðan og reyndist allt sem huldumaður hafði í draumi birt henni; fannst vaggan á tilteknum stað með barninu í og þar ofan á prestaskrúð dýrmætt og línsloppur.
Prestur skírði síðan barnið og var það í vögguna látið með hinum sama umbúnaði og það hafði verið er það fannst. Skrúðann hirti prestur, en línsloppurinn var lagður ofan á vögguna. Skömmu síðar var vaggan með barninu horfin, en línsloppurinn var þar eftir.