Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tökum á

Einhvern tíma var kona nokkur sem neyddist til að fara á engjar frá tveimur börnum sínum; var annað á fyrsta ári, en hitt á þriðja. Var hið eldra farið að tala nokkuð. Konan lagði yngra barnið í vöggu og signdi yfir og undir það. Einn dag sá hið eldra barnið hvar tvær konur komu. Þá sagði önnur:

„Tökum á.“

Hin svaraði:

„Ekki má,
kross er undir og ofan á,
tvævetlingurinn situr hjá og segir frá.“

Síðan fóru báðar konurnar burtu án þess að eiga nokkuð við börnin.