Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tekannan
Tekannan
Sá prestur var í Gaulverjabæ fyrir löngu sem Jóhann hét. Hann þótti fyrirtaks klerkur um flesta hluti og því var hann prófastur í Árnessýslu. Hann átti konu við sitt hæfi og unnu þau hvort öðru mikið þó ekki yrði þeim barna auðið; það eitt þótti þeim þau skorta á fullsælu þessa heims því auð höfðu þau nógan. Þau voru samhuga um flesta hluti nema í því atriði einu að prófasturinn hafði mikla trú á álfum, en kona hans alls enga. Þau leiddu oft saman hesta sína út af því í gamni og alvöru og lét hvorugt af sínum málstað fyrir öðru. Meðal annars hafði prófastur trú á því að álfar flyttu búferlum á gamlárskvöld sem margir höfðu á þeim tíma. Það var siður prófasts, eins og tíðkaðist á þeim öldum, að halda kvöldsöngva kvöldinu fyrir allar stærri hátíðir og hafði hann það lag á því að hann borðaði rétt áður en hann fór út í kirkjuna til kvöldsöngsins, en tók sér oft dúr áður en hann mataðist í herbergi því sem fylgdi mörgum prestsetrum og prestakamers hét af því þar áttu prestar helzt að hafast við með allt sitt, enda svaf séra Jóhann þar og mataðist, las og skrifaði því þar var hann mest út af.
Einn gamlársdag á úthallandi degi segir prófastur við konuna sína að hann ætli ekki að leggja sig fyrir núna í rökkrinu, en ganga sér til gamans dálítinn kipp út í hraunið sem er á þrjá vegu út frá túninu í Gaulverjabæ og muni hann verða burtu dálitla stund, en þegar hann komi aftur skuli hún vera búin að leggja á borð svo hann þurfi ekki annað en matast og fara að því búnu út í kirkjuna. Kona hans hét honum góðu um það. Síðan fer prófastur þegar honum þykir tími til út um kvöldið.
Þegar prófastskonunni þótti mál til komið ætlar hún fram í prestakamers að bera á borð. En þegar hún kemur að kamersdyrunum eru þær harðlæstar og lykillinn ekki í skránni. Henni þykir það undarlegt því prófastur var ekki vanur að taka lykilinn úr þó hann færi burtu og því síður þó hann hefði lagt sig til svefns. Hún sneri því aftur og lætur enn líða og bíða um sinn. Að stundu liðinni kemur hún aftur að hurðinni og er þá lykillinn kominn í skrána. Lýkur hún svo upp og ætlar að bera á borð. Sér hún þá að prófasturinn er kominn og hefur lagt sig fyrir, en á borðinu sér hún að stendur logagyllt tekanna hnattmynduð og handarhaldið beygðist niður eins og þrjú laufblöð. Þegar hún var búin að bera á borð vakti hún mann sinn og spyr hann hvernig á þessari könnu standi. Hann segir að það sé ekki að marka það, það sé heimskan úr sér að tarna. Hún gekk því meir á hann um þetta og sagði að hún vissi ekki að þessi gripur hefði verið fyrri í þeirra eign og hún mundi nú fara betur að trúa eftir en áður að eitthvað væri til í því sem hann segði um huldufólk. Prófastur gegndi því litlu, en fór að borða.
Í því er klappað á kamersdyrnar; það var gengið í þær út úr bæjardyrunum. Prófastskonan ætlar til dyranna, en prófastur segist skuli fara sjálfur til dyra því það muni vera einhver sem vilji finna sig. Síðan lýkur hann upp og stendur þar þá í gáttinni stúlka lítil öll grátbólgin og heilsar upp á prófastinn með nafni. Hann tekur kveðju hennar og segist ekki þekkja hana þó hún þekki sig. „Já,“ segir hún, „ég sá yður áðan á gangi hérna úti í hrauninu. Ekki vænti ég þér hafið fundið nokkuð sem ég týndi þar af hestunum?“ „Hvað átti það so sem að vera?“ segir prófastur. „Það var tekannan hennar húsmóður minnar; ég hafði hengt hana á miðklakkinn, en hún hefur hrokkið upp af honum og get ég þó hvergi fundið hana þar sem ég fór með hestana, en þori með engu móti að segja henni húsmóður minni frá því að ég hafi týnt henni.“ Prófastur tekur þá fingurgull undurfallegt af fingri sér, fær stúlkunni það og segir: „Fáðu henni húsmóður þinni þetta fyrir tekönnuna því henni ætla ég að halda.“ Stúlkunni þótti óvenju vænt um og þakkaði prófasti blíðlega fyrir og sagði þess hefði alténd verið von af honum að hann bætti úr bágindum sínum. Eftir það kvaddi hún prófast og fór leiðar sinnar. En það er um tekönnuna að segja að hún var lengi í ættum fósturbarna þeirra Jóhanns prófasts, og hefur húsfrú Guðríður Magnúsdóttir sem lengi bjó í Oddgeirshólum séð könnuna og veit það seinast til hennar að hún var látin í steypu til koparsmiðs.