Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllin í Potti
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Tröllin í Potti
Tröllin í Potti
Á Stóru-Þverá í Fljótum var til forna kirkja eins og enn sjást merki til. Það var eitt haust einn fagran veðurdag að heimafólkið þar var til altaris. Eftir messu bað bóndi einhvern að fara að smala, því sér sýndist korg draga í loftið. Enginn fékkst til þess nema vinnukona ein; hún fór af stað að smala. En þegar hún var komin þangað sem stöðvar kindanna voru, í afdal til hægri handar sem Pottur heitir, heyrir hún að sagt er í klettinum: „Þar fer ein; eigum við að taka hana?“ „Nei, látum hana fara; hún er kámug um kjaftinn,“ er svarað. Stúlkan beið ekki boðanna, en flýtti sér heim með féð. Bóndi setti það inn. En um nóttina gerði slíkan snjó að helming fjár fennti í Fljótum. – Afdalurinn heitir nú Pottur.