Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllkona drukknar

Sagt er að tröllkona nokkur hafi eitt sinn ætlað að vaða frá Noregi til Íslands, en sagt að áll einn mjór væri í miðju hafi svo djúpur að þar mundi kollur sinn vökna. Þegar hún kom að álnum ætlaði hún að ná í skip er þar var á siglingu og styðjast við það yfir álinn, en hún missti skipsins og varð um leið fótaskortur svo hún steyptist í álinn og drukknaði. Var það lík hennar sem rak hér eitt sinn og var það svo stórt að ríðandi maður gat riðið undir knésbótina kreppta.