Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Tröllkonan í Skaftafelli
Tröllkonan í Skaftafelli
Fyrir mörgum árum síðan bjó bóndi í Skaftafelli sem Bjarni hét. Hann var hinn mesti smiður, einkum steypusmiður. Það er mælt að tröllkona hafi búið þar inn á dalnum innan við Skaftafellsskóginn í helli einum sem þar finnst enn í dag. Þessi skessa var mjög vinveitt Bjarna; hún vaktaði sauðfé hans á vetrum og rekann á fjörunum. Oft sat hún í smiðju hjá honum; helzt þegar einhver var kominn því hún vissi að Bjarni hafði ólukku á því.
Eitt sinn um vetur mælti hún við Bjarna að skip væri rekið á fjöruna, en allir mennirnir dauðir utan einn. Sagði hún væri nauðsyn á að ráða hann sem fljótast af dögum því hann annars eyðilegði allt Suðurland og jafnvel meira. Síðan er mælt hún hafi tekið í hönd sér öxi mjög mikla er hún átti og gengið á fjöruna ásamt Bjarna og ráðið þenna óttalega blámann af dögum.
Svo dó nú Bjarni að skessan lifði enn. Hann átti son sem Einar hét sem líka bjó í Skaftafelli; var hún honum eins handgengin sem Bjarna. Svo dó Einar að skessan var enn á dögum. Einar átti son sem Bjarni hét (faðir Guðrúnar á Maríubakka konu Runólfs sem þar er nú). Í tíð Einars þessa dó skessan loksins; var hún þá búin að lifa rúma tvo mannsaldra. Þó vita menn eigi aldur hennar áður hún kom til gamla Bjarna. – Hellirinn stendur enn í dag með einum glugg á miðjum mæni, en rúm skessunnar kvað vera höggið í bergið. Er það hér um bil átta álna langt og tveggja álna breitt. En mælt er að gamli Bjarni hafi smíðað hurð og allan dyrabúning fyrir helli þann svo skessan skyldi eiga því betra þar inni.