Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Truntum runtum og tröllin mín í klettunum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Truntum runtum og tröllin mín í klettunum

So byrjar saga þessi að bræður tveir hétu Jón og Sigurður; þeir voru úr Skagafirði. Ungir vóru þeir að aldri þegar þeir tóku illa að una sveitavinnu á vetrum. Heyrðu þeir sagt gott til menningar að róa á Suðurlandi og eitt haust biðja þeir föður sinn fararnestis og hesta, og lætur hann það af hendi. Fara þeir suður og bar ekki neitt til tíðinda í för þeirra. Fiska þeir vel og fara heim næsta vor. Hafa þeir nú þann hátt að þeir róa suður hvurn vetur, en eru heima á sumrum.

Eitt haust gistu þeir í Víðidal að Tungu. Þar kom til þeirra snauður piltur og nefndist Eiríkur, hinn efnilegasti á vöxt; hann var þá átján vetra. Biður hann þá bræður að leyfa sér samfylgd suður og eru þeir tregir á að lofa því; en um síðir varð það og báðu þeir hann ábyrgjast sig sjálfan. Leggja þeir af stað og upp á Tvídægru. Seint um kvöldið æja þeir hestum og tjalda. Eiríkur liggur utarlega við dyr. Sofna þeir bræður fast og vakna ekki fyrr en ljóst er orðið og sakna nú Eiríks. Leita þeir hans þar um kring, en finna ekki; halda nú suður yfir og fá menn úr Hvítársíðu til leitar. Næsta dag ganga þeir víða um heiðina og allt austur í jökla, en ekki hitta þeir Eirík. Er þá hætt leitinni og þótti víst að einhvur óvættur hefði grandað honum. Að vertíðarlokum ríða þeir bræður norður. Liggur þá leið þeirra með hömrum nokkrum. Þar sjá þeir mann og þykjast þekkja Eirík, heilsa honum og bjóða samfylgd; en hann kveð[st] ekki geta til þeirra komið. Þeir spyrja hvurnig honum líði; er hann fátalaður um það. Síðan spyrja þeir á hvurn hann trúi. Hann svarar: „Á heilaga þrenning.“ Skilur nú með þeim.

Um haustið fara þeir sama veg og sjá enn Eirík; er þá orðinn hár og gildur. Þeir frétta hann [um] trúna. Segir hann þá dauft: „Ég trúi á guð.“ Ekki tala þeir fleira. Vorið eftir sjá þeir hann enn og er hann hinn tröllslegasti og blár að yfirlit; spyrja nú sem fyr, en hann svarar með mikilli og dimmri rödd: „Ég trúi á truntum runtum og tröllin mín í klettunum.“ Ekki urðu þeir bræður framar hans varir þó um heiðina færi. Og endar so sagan.