Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Um illvættir

Illvættafræðin er þó ósögulegri[1] þó nógar hafi verið og séu meiningar um þá og dæmi til ekki þykja fækkað hafi. Næstliðinn októbermánuð, 1859, þegar maðurinn fór fram hjá Þingaskálahólum kvöldtíma í hvössu veðri, en hann fór að siga hundi sínum er áður fór að gjálfra, er sagt að hundinum hafi verið af ósýnilegu kastað í fang mannsins so hann hafi dottið á bak aftur.

Illvættir hafa sumpart verið eignaðir illum hugum þeirra er sagt er hafi verið hengdir eða afmáðir á ýmsum stöðum af sjálfs eða annara völdum eða þeir hafi frá alda öðli verið á sínum stöðum, og tröllafræðin mest tekin úr fornaldasögum. Þó eru nokkur gil og gljúfur sem menn hafa þókzt verða varir við tröll í, sem einhvorn tíma hafi sókt eftir mönnum og þeir því orðið frillulífs- og hórunarsamir er þeir fríuðust frá tröllum. Og þó sögur af þeim hafi ei verið eins iðkaðar ljúflega sem af huldufólki, hefur mönnum þó gengið í augu liðsemdadugnaður sem þeim hefur verið eignaður í fornaldasögum og yngri fræðimunnmælum, so sem þegar Skaftafellsbóndinn mætti skessunni með steypireyðarkálfinn á baki og hann lét hana fara fría, en dag[inn] eftir var fullorðin steypireyður komin í fjöruna, eða þá hann mætti henni og reiddi yfir Skeiðará og [hún] sagði við hann að bakragar gjörðust nú barnkonur, en hún ól hesta hans um veturinn; eða þá hann gaf henni sauðarfallið, en [hún] lagði á Skaftafell að þar skyldi aldrei sauðlaust verða.

  1. Þ. e. ósögulegri en huldufólksfræði.