Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Umskiptingar

Ég hefi aldrei heyrt þess getið að skipt hafi verið um óskírð börn og er orsökin til þess kannske sú að óskírð börn eru aldrei skilin eftir einsömul.

Vissasta ráðið til að vita hvort barn er umskiptingur eða ekki er að reyna að setja það upp á altarið, því vegna þess umskiptingar eru svo vondrar náttúru og sjálfsagt allir frá heiðnu en ekki kristnu huldufólki, en altarið er svo háheilagt, vilja þeir heldur vana til að teygja sig allt hvað þeim er mögulegt en að láta það á sig ganga að verða settir upp á altarið.

Það er alkunnugt að sumt af huldufólkinu (svartálfar) hér á landi er heiðið. Það er að minnsta kosti sú aðgreining á svartálfum og bjartálfum. Á Víðivöllum í Skagafirði voru bjartálfar í klöppunum fyrir sunnan bæinn, en svartálfar í klöppunum fyrir utan hann. Í Grímsey var allt huldufólkið kristið og velviljað, enda heyrðist þar aldrei getið um umskiptinga. – Ég hefi eitt sumar (1841) á Stóru-Þverá í Fljótum kynnzt við dreng[1] sem fremur en ekki var haldinn umskiptingur. Hann var mjög fáráður, þá hér um fjórtán vetra. Gat hann ekkert lært að gera og ekkert lært að tala af viti, en flest orð gat hann eftir haft nema orðin „sól“, „guð“ og „já“. Þau orð fékkst hann aldrei til að reyna að hafa eftir né neitt það orð sem þessi atkvæði eru í. Mjög þókti hann hrekkvís og launklípinn.

  1. Eru umskiptingar allténd drengir? Nei, það er ekki, þegar ég gái að, því nýlega sagði prestkonan Margrét á Brúarlandi mér að hún hefði eitt sinn kynnzt við stúlku sem haldin var umskiptingur. [Hdr.]