Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Vinnukonan á Sauðanesi

Prestkonan Ólöf á Sauðanesi hefur svo sjálf frá sagt að næsta sumar eftir hún giftist séra Stefáni[1] kom hún út snemma morguns og sér að mjög vel búin kona gengur upp með kirkjugarðinum og stefnir heim á hlaðið. Ólöf gengur móti henni og býður henni góðan dag – en þykist ei kenna hana – og þar með býður hún henni inn með sér og spyr hana að nafni. Þá mælti hin aðkomna kona: „Þig varðar ekki um nafn mitt og ég gef ekkert um að þiggja boð þitt því það skaltu vita að ég er prestkona eins og þú og heimili mitt er ekki langt burtu.“ Síðan gengur hún burt og stefnir upp eftir túninu og upp á leiti það sem er fyrir ofan túnið og hvarf þar prestkonunni Ólöfu.

Hjá Ólöfu prestkonu var eitt sinn vinnukona að nafni Rósa; hún var í húsi sér í öðrum baðstofuenda. Eitt kvöld þá allir vóru í svefn komnir heyrir Rósa að gengið er inn um baðstofuhurðir; hana furðar ef fólk sé ekki allt lagzt. Þar næst sér hún að inn í húsið sem hún er í kemur kona og hefur með sér ungt barn. Þar á eftir koma aldraður maður og ungur maður og unglingsstúlka. Í húsinu annars vegar var stóll og bekkur sem vinnukonur sátu í á daginn, en prestkonan í stólnum. Nú sem þetta huldufólk er komið inn í húsið mælti aldraða konan að hún atlar sér að setjast í sæti prestskonunnar, en kvað hitt skyldi setjast á bekkinn, hvað það gjörði. Þar eftir tekur hún hvítan poka og leysir til hans og tekur þar upp hvíta leirdiska og alslags matvæli sem hún skammtar á þá. Síðan fer það að borða. Þar næst segir hún unglingsstúlkunni að koma með diskinn hennar Rósu. Síðan skammtar hún sama mat á hann og biður hana að seta hann til hennar. En Rósa sem lá nú á baki og gat ei hreyft sig fyrir einhverju ómegin sem á hana var komið af þessari sýn gat ei tekið við diskinum svo stúlkan setti hann ofan á brjóstin á henni. Þá mælti huldukonan: „Sjáið! Hún forsmáir mat vorn.“ En hitt kvað það ei vera; – „mun hún heldur vera hrædd,“ sagði það. Meðan það var nú að snæða þarna mælti huldukonan: „Ei þarf ég að hrósa örlæti madömu Ólafar því aldrei hefur henni orðið að vegi að snara lepptusku utan á krógann minn þann arna.“ Og sem það er hætt að borða fer huldukonan að láta leifarnar aftur ofan í pokann. Þá lítur hún yfir til Rósu og mælti til dóttur sinnar: „Taktú aftur diskinn og fá mér matinn af honum; hún forsmáir mig og matinn.“ Stúlkan gjörir þetta, og sem konan var búin að ganga frá matnum stendur hún upp, gengur til Rósu og slær hendinni á öxl hennar. Síðan býst það til brottferðar, en áður það gengur fram úr húsinu gengur stúlkan til Rósu og mælti: „Les þú faðirvor þitt þrisvar og signdu þig. Snúðu þér svo til veggjar og muntu þá sofna og vakna heilbrigð; mun þig ei framar saka blak móður minnar.“ Rósa gjörði þetta og vaknaði heilbrigð um morguninn. En aldrei framar sá hún þetta huldufólk.

  1. Ólöf Hannesdóttir giftist séra Stefáni Einarssyni 24. júní 1809 (bjuggu á Ytralóni til 1813).