Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Herra minn, gefðu mér hólk á staf

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Herra minn, gefðu mér mjólk á staf“

Förudreng einn í Norvegi dreymdi það hann væri kominn til Valhallar. Þar var fagnaður hinn mesti. Þar starfaði Freyja að borðum með öðrum ásynjum, en Óðinn sat í hásæti. Freyja rétti að honum tvo bita af galtarfleski og stakk hann þeim í tötrabagga sinn. Hann beiddi Óðin að gefa sér hólk á stafinn sinn því hann hefði glatað honum í Norvegi. Þessa getur í kvæði því er þar um hefir orkt verið:

Herra minn gefðu mér hólk á staf,
hann vil ég gjarna þiggja.
Trúa mín veit ég týndi honum af,
ég tel hann í Norveg liggja.

En er hann vaknaði var hvorutveggja í poka hans. Ketbitana gaf hann hundum tveim og drápust báðir, en hólkinn brúkaði hann.