Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ég hef svo langan...

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Ég hef svo langan...“

Einu sinni fór biðill í kvonbænaferð, en annar maður vissi um þetta og vildi eiga stúlkuna; bauðst því til að fara með honum. Fylgdarmaður hans fór að segja biðlinum frá því að faðir stúlkunnar hefði áður frá vísað manni því [hann] kunni ekki að hegða sér eða tala rétt og sagði honum hvernig hann skyldi haga sér því hann væri svo kunnugur: Til að mynda ef honum yrði réttur askur með mat í skyldi hann segja: „Ég hef svo langan tausinn að ég kann vel ná í rassinn;“ því handleggurinn væri kallaður taus, en askurinn rassinn. Svo héldu þeir til bæjarins og var þeim vel tekið og settir til borðs. Hann bar upp bónorðið, en bóndi kvaðst ekki geta svarað því fljótt. Nú var biðli færður askur, en þegar húsmóðirin ætlaði að rétta honum askinn hafði biðillinn upp orðin: „Ég hef svo langan tausinn“ og svo framvegis. Þegar hjónin heyrðu þetta álitu þau hann vitlausan og varð ekki meira af biðilsförinni. En fyldgarmaður hans vistaðist þar og fekk stúlkunnar.