Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Öxneyingar

Af Öxneyingum eða Öxneyjarbræðrum á Vesturlandi hafa farið viðlíkar sögur og af Bakkabræðrum á Norðurlandi. Einu sinni fóru Öxneyingar til meginlands og ætluðu í kaupstað (Stykkishólm). Þeir lentu býsnaspotta frá kaupstaðnum og fengu sér hross eitt til að ríða í kaupstaðinn. Öxneyingar voru óvanir reiðum og settust því allir sex upp á hrossið í einu og riðu svo þangað til þeir voru nærri komnir í Stykkishólm. Þá urðu þeir í ráðaleysi með það hvernig þeir ættu að geyma hrossið á meðan þeir væru í kaupstaðnum; loksins urðu þeir allir á því að þeir skyldu stjóra aftur af því og fram af og bundu hausinn og taglið sitt við hvorn klettinn og röðuðu stórum steinum eftir endilöngu bakinu á því. Þegar þeir komu aftur og ætluðu að taka hrossið var það dautt sem von var af þessari meðferð, svo að þeir urðu að labba til skipsins.

Á leiðinni í kaupstaðinn hafði gömul kona verið með þeim, en orðið illt svo að þeir hleyptu henni upp í flæðisker eitt og ætluðu að láta hana bíða sín þar þangað til þeir kæmu aftur og hefðu hana heim með sér. En á meðan þeir voru burtu hafði orðið fallaskipti og komið flóð, en fjara var þegar kerling fór upp í skerið. Þetta höfðu Öxneyingar ekki athugað, að sjór gengi yfir skerið sem hafði skolað kerlingunni burtu.