Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Öxneyjarbræður

Í Öxney á Breiðafirði bjuggu eitt sinn bræður þrír; þóttu þeir miðlungi hyggnir. Systur áttu þeir þá er Guðbjörg hét og var hún lík að viti bræðrum sínum. Eitt sinn bar svo við að þeir bræður fengu af landi nýsýndan hvolp. Þótti þeim gaman að honum og vildu ala hann upp; en er hvolpurinn stálpaðist ræddu þeir um hvað þeir skyldu láta hann heita. Þeir stungu upp á ýmsu, en líkaði þó ekkert nafnið. Segir þá Gudda systir þeirra: „Látið hann heita Hrútshornagassa.“ „Já,“ segja þeir, „Gudda kom með það, Hrútshornagassi skal hann heita.“

Eitt sinn áttu þeir bræður ferð í Stykkishólm. Fluttu þeir með sér kerlingu er Gróa hét. Ætluðu þeir að skilja hana eftir í hólma nokkrum á leiðinni til að safna sölvum meðan þeir væru í Hólminum. Þeir skildu Gróu eftir á skeri einu. En er þeir fóru til baka fundu þeir ekki skerið og hafði sjór fallið yfir það og því síður fundu þeir kerlingu og sölvapokann; heitir þar síðan Gróusker.

Eitt sinn áttu þeir bræður tal um það við kaupmanninn í Stykkishólmi hve útdragssamt það væri að kaupa trjávið til skipasmíða og hversu illa hann entist í skipunum. Spyrja þeir hann hvort ekki mundi mega smíða skip úr járni og kvað hann að það mætti gjöra. Kemur nú bræðrum ásamt um að reyna þetta og kaupa svo mikið járn hjá kaupmanni er þeir ætluðu að duga mundi í fimm manna far og hlaða bát sinn með járninu og fara af stað. Á leiðinni ræða þeir um járnkaupin og þykja ærin, en þó sé vel við að una ef ekki kaupmaðurinn falsi þá, og vilja nú þegar reyna það, taka járnið og láta fyrir borð, og sökk það allt jafnskjótt. Þykir þeim þá raun á orðin að kaupmaður hafi falsað þá og logið að sér, þykjast og vita ætlun hans að drepa þá alla á járnskipinu, hefðu þeir smíðað það og ekki verið svo hyggnir sem þeir voru nú, að reyna járnið áður. Ræða þeir margt hér um og kom þar niður að þeir áttu fullar bætur að kaupmanni, ekki einungis fyrir járnverðið, heldur og fyrir fjörráð hans við sig, og snúa leið sinni til að finna kaupmanninn og hafa af honum bæturnar. Fóru þeir nú æstir mjög, fundu kaupmanninn og kærðu mál sitt, en í stað bótanna fengu þeir ekki annað en ámæli og athlátur fyrir fíflsku sína bæði hjá kaupmanni og öðrum er þeir áttu tal við um þetta, og fóru svo búið heim aftur.

Það var eitt haust að þeir bræður fóru til lands á Skógarströnd. Ætluðu þeir að erindum sínum upp í hérað og fengu hjá bónda einum hryssu léða til ferðarinnar. Maðurinn sem hrossið léði mælir um við þá að þeir fari vel með það og gæti þess að ekki fari það að óskilum. Þeir heita því; en er þeir fara af stað spyrja þeir bónda hvort hann hafi látið negluna í hrossið. Aðrir segja að þeir hafi tekið ráð hjá sjálfum sér og gjört það. Segir nú ekki af ferð þeirra daglangt; en um kveldið tóku þeir sér náttstað á bæ einum og komu hryssunni á haga. En áður þeir færu að sofa kom á hvassviðri. Óttuðust þeir þá að hryssan myndi fjúka ef hún væri laus í haganum og báðu bónda ljá sér reipi og fengu og fóru með til hryssunnar. Bundu þeir nú rammlega aftur og fram af henni og settu grjótsig þvers um hana svo hún gæti ekki fokið, gengu svo til bæjar og tóku á sig náðir. Um morguninn vitja þeir hryssunnar og var hún á sama stað, en kynlegt þótti þeim að hún lá þar dauð undir grjótsigunum. Þótti þeim það illa orðið og ekki sér að kenna, því þeir hefðu forsvaranlega búið um hana kveldið áður og víst hefðu bátar sínir staðið jafngóðir næturlangt með sama aðbúnaði. Þar sem hryssan lá sáu þeir tað nokkurt og mælti þá einn þeirra: „Er þetta spaug, bræður? Skepnan skítur dauð.“ Hinir litu til og sönnuðu sögu hans.

Eitt sinn komu þeir bræður tveir til kirkju nokkurrar. Var þá fólk svo margt í kirkjunni að þraut sæti. Þeir bræður náðu einu sæti báðir, en möttust um það allan messutímann og sögðu: „Sit þú, ekki sit ég; nei, sit þú, ekki sit ég.“ En hvorugur settist.

Eitt sinn kom yfir þoka þegar þeir voru á sjó bræður og fóru þeir villtir. Þeir komu auga á lunda og segir þá einn þeirra: „Einhvers staðar hefur hann holuna sína í kveld þessi.“ Kom þeim þá saman um að elta lundann og eltu þeir hann lengi dags, en þó hvarf hann þeim áður þeir fyndi land.