Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þjófur er hann Dalamann

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Þjófur er hann Dalamann“

Einu sinni kom drengur vestan úr Dölum í Skálholt (Norðlendingar segja að hann hafi komið að Hólum í Hjaltadal framan úr Skagafjarðardölum) á laugardaginn fyrir páska og bað að lofa sér að vera þar fram yfir hátíðina og var honum heitið því. Það orð hafði leikið á um dreng þenna að hann væri ekki vandaður til handanna og væri jafnvel sauðaþjófur; þó fór það ekki í hámælum og aldrei hafði hann orðið uppvís að stuldi. Þetta vissu skólapiltar þeir er voru úr sama byggðarlagi og hann og ásettu þeir sér að gera honum einhverjar glettur eða kinnroða ef verða mætti.

Þegar farið var að hringja til hámessu á páskadaginn var eins og lög gera ráð fyrir hringt þremur klukkum, einni ákaflega stórri og hljóðdimmri, einni nokkuð minni og hljómhvellari, og hinni þriðju lítilli bjöllu, en ákaflega hljómskærri. Þegar hringingarnar byrjuðu fóru skólapiltar út fyrir staðinn og höfðu drenginn með sér og voru að tala við hann á víð og dreif meðan á hringingunum stóð. En þegar farið var að samhringja með öllum klukkunum í einu beiddu þeir hann að taka vel eftir hvað klukkurnar segðu. Strákur gerir svo og hlerar til, en þykist ekki heyra neitt annað en venjulegt klukknahljóð. Þá sagði einn af skólapiltum: „Gáðu að þér, maður; heyrirðu ekki að stóra klukkan drynur með dimmri rödd:

Þjófur er hann, Dalamann
Dalamann, Dalamann.

Miðklukkan tiltekur hvað mörgu fé þú hefur stolið:

Tólf tók hann lömbin,
tólf tók hann lömbin,
tólf tók hann lömbin.

En þó er litla hljómhvellasta klukkan verst; því hún segir í mjóa rómnum:

Takið 'ann,
takið 'ann,
takið 'ann.“

Þá beið strákurinn ekki lengur boðanna, hljóp úr páskaveizlunni og þorði aldrei að koma á staðinn upp frá því.