Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Því ertu að blása...?
„Því ertu að blása...?“
Einu sinni var ungur prestur og ókvæntur; hann bjó búi sínu mað ráðskonu. Ekki er getið um hvað annað fólk hann hafði haldið; en einn vinnumann hafði hann er honum þókti vænt um því hann var bæði ötull og úrræðagóður. Svo fór samt þegar til lengdar lék að presti fór að þykja aumt einlífið með því hann hafði spurt af efnilegri stúlku, dóttur auðugs manns er var nokkuð langt í burtu. En svo stóð á að vinnumanni prestsins hafði lengi leikið hugur á sömu stúlkunni, en ekki komið sér að því að biðja hennar af því hann ímyndaði sér að foreldrarnir hugsuðu henni eitthvað hærra en óvalinn almúgamann.
Prestur segir einu sinni við þenna vinnumann sinn að hann skuli koma með sér; hann ætli að ríða þangað sem hann til tók. Vinnumann grunaði þegar með hverjum erindum prestur ætlaði þangað, en lét þó ekki neitt á neinu bera. Þeir búa sig svo til ferðar; en þegar prestur er kominn á bak á hlaðinu segir hann við vinnumanninn að hann skuli bregða sér inn eftir handbókinni sinni því hann hafi gleymt henni. Maðurinn gerir svo, hleypur inn til ráðskonunnar og skilar til hennar að prestur vilji hafa með sér hangið ket í nestið og segir henni að vera fljótri að taka það til því hann bíði sín úti á hestbaki. Meðan ráðskonan er að taka til ketið fer maðurinn að leita að handbókinni, finnur hana og tekur malpokann hjá ráðskonunni, fer út og bindur hann fyrir aftan sig, en fær presti bókina. Síðan fara þeir á stað og ríða lengi dags unz þeir á hestum sínum þar nálægt sem heybólstrar voru. Þar leggst prestur norðan undir einn bólsturinn, en vinnumaðurinn sunnan undir hann með mal sinn og fer að snæða. Litlu síðar heyrist presti hann vera að töggla eitthvað og spyr hann hvað hann sé að éta. Vinnumaðurinn segist vera að tyggja heyið úr bólstranum. Prestur var orðinn innantómur og fer að bragða það líka, en þókti það illt átu og gat ekki kyngt, því hvert stráið stakkst í kokið á honum eftir annað. Þegar þeir höfðu áð þar um hríð tóku þeir hesta sína og héldu áfram; riðu þeir nú mikið og náðu loks þangað er þeir ætluðu í hálfrokknu. Bóndi var heima og dóttir hans og kona og tóku þau öll vel í móti presti og býður bóndi honum að vera þar. Síðan fer prestur með bónda í stofu og ber hann þar upp bónorð sitt fyrir honum. Bóndi tekur því vel og fastnar honum dóttur sína með samþykki þeirra mæðgna. Verður nú prestur þess var að þær mæðgur hafa mikinn fyrirgang og matartilbúning svo hann og fylgdarmaður hans verða að bíða býsna stund áður farið er að breiða á borð. Prestur gengur þá út og bendir vinnumanni sínum að koma með sér. Síðan gengur prestur með hann í afvikinn stað og segist vilja biðja hann fyrir, því hann muni sitja hjá sér við borðið, að stíga á tána á sér þegar hann haldi að hann sé búinn að borða nóg, því annars segist hann óttast fyrir að hann borði of mikið því hann sé orðinn svo hungraður að það taki engu tali. Eftir það ganga þeir inn; er þá matur á borð borinn, hnausþykkur grjónagrautur, hangið ket og önnur kostfæða. Taka þeir nú til matar allir þrír, bóndi, prestur og meðreiðarmaður hans. Hundur einn mórauður að lit var undir borðinu. Hann sníkti á þá og gekk mjög milli þeirra er mötuðust. Hann kom og til prests er hann hafði naumlega fengið sig hálfan og álpast til og stígur á tána á honum, og steinhættir prestur þegar að borða; en hinir borða eftir þörfum. Eftir máltíð er þeim presti fylgt báðum í eitt rúm undir baðstofulofti og hátta þeir þar, en annað rúm var í sama herbergi og sváfu hjónin í því. Nú sofna þeir ferðamennirnir skjótt. En ekki líður langt um þegar allur umgangur er af að prestur vaknar, vekur lagsmann sinn og segir við hann að hann hafi gert illa að stíga svona fljótt á tána á sér í kvöld því hann hafi ekki verið búinn að fá í sig hálfan og segist hann nú vera svo hungraður að hann þoli ekki við eða hvort hann kunni sér engin ráð að kenna við því. Maðurinn segist ekki hafa komið nærri tánni á honum í kvöld og hafi það nokkur verið þá hafi það verið mórauði hundurinn. En við því kvaðst vinnumaður kunna ráð að hann dæi ekki úr hungri næturlangt. Hann sagðist hafa tekið eftir því að í húsinu fram af svefnherbergi þeirra væri matvæli geymd og þegar þeim hefði verið fylgt til sængur hefði hann séð þar hvíta krukku stóra með graut í. Prestur bað hann fylgja sér þangað því hann rataði ekki til rúmsins aftur. Maðurinn kvaðst ekki nenna að fara ofan um miðja nótt, en sagði að það væri langt snæri í treyjuvasanum sínum og skyldi prestur hnýta öðrum enda þess utan um sig, en hinum endanum hnýtti vinnumaðurinn um rúmmarann þeirra. Þókti presti þetta óskaráð. Eftir það fer hann fram og finnur matarklefann; er þar hálfbjart því gluggi var á hliðveggnum og tunglsljós úti. Kemur hann nú auga á grautarkrukkuna hvítu og rekur hendina ofan í hana. En til þess að fara ekki erindisleysu kreppir hann hnefann þegar hann er búinn að koma hendinni ofan í, og ætlar að ná upp fullri lúku sinni af graut; en af því krukkan var hálsmjó kemur hann hendinni ekki lengra en upp í þrengslin og verður hún þar föst. Fer nú prestur og svipast í kringum sig; kemur hann þá auga á pott með graut í og ausu, tekur ausuna með hinni hendinni og spænir ótæpt upp í sig með henni úr pottinum, en lætur krukkuna dingla á hinni hendinni þar sem hún var komin. Þegar hann hefir borðað sig mettan fer hann að staulast inn aftur, en hugsar sér þó að það sé varlegra fyrir sig ef vinnumaðurinn sinn kynni að vera svangur að hafa með sér grautarslembru í ausunni, og það gerir hann. Á meðan prestur var frammi fer vinnumaður hans ofan og leysir snærið af maranum hjá sér og bindur því aftur um rúmmarann hjónanna, svo þegar prestur fer að lesa sig inn eftir snærinu fer hann að hjónarúminu, en ekki sínu. En tunglið var þá farið að skína um herbergið og leggur skinið af því á eitthvað hvítt er lá fram á stokkinn á hjónarúminu. Prestur hélt að það væri andlitið á vinnumanni sínum og ber þar að ausuna í því skyni að hann sypi á. En með því þetta var bakhlutinn ber á bónda, en ekki eins og prestur ætlaði, og bóndi rumskaði eitthvað lítið við umganginn varð honum það að hann leysti vind. Prestur hugði að vinnumaður sinn hefði blásið á grautinn af því hann ímyndaði sér að hann væri of heitur, og sagði: „Því ertu að blása á blákaldan grautinn, maður?“ En þegar maðurinn tekur ekki við úr ausunni að heldur slettir prestur úr henni um setholtið á bónda og hugsar að grauturinn skuli þó í honum lenda fyrst hann sé búinn að hafa svona mikið fyrir honum. Síðan leggur hann ausuna niður hjá rúmstokknum og ætlar að fara upp í. Þá kallar vinnumaður til prests og segir honum að það sé rúmið hjónanna sem hann ætli að brölta upp í. Prestur gegnir því, fer í sitt rúm og leggst fyrir og sofnar með krukkuna á hendinni. Litlu síðar vaknaði kona bónda og þreifaði fram fyrir hann; finnur hún þá að hann er allur löðrandi á bakinu svo hún vekur hann og segir við hann að hann sé búinn að gera í rúmið. Bóndi vaknar við vondan draum, finnur þetta sama og biður hana að hafa einhver ráð með að verka þetta af sér. Konan segir að það beri minnst á því ef hann stökkvi snöggvast út í laug og þvoi þar allt kámið af sér; því þar á bænum voru volgar laugar og hverir. Síðan fer bóndi út, en konan sofnar skjótt aftur. Þegar bóndi er nýfarinn og konan sofnuð vaknar prestur aftur og fer að tala um það við vinnumann sinn sem vakti þetta allt af að hann yrði að losa krukkuna af hendinni á sér áður en fólkið vaknaði á bænum og kæmi á fætur svo það sæi hann ekki með hana á handleggnum því það liti svo aflagislega út. Maðurinn segir að honum sé bezt að slá henni einhverstaðar við svo hún brotni utan af hendinni. Prestur segist ekki vita hvar hann eigi helzt að mölva krukkuna við, því ef hann gjöri það inni í svefnherberginu muni hjónin vakna og það líti svo út sem þeir hafi farið að glettast við krukkuna. Vinnumaður segir honum að hann skuli fara út í laug; þar standi upp steinn hvítur í lauginni og skuli hann slá krukkunni við hann. Prestur fer og kemur að lauginni, sér steininn í tunglskininu og dembir á hann krukkunni sem hékk alltaf föst á handleggnum á honum. En þegar krukkan ríður í steininn er presti sýndist vera kom upp hljóð mikið úr lauginni og spyr hvert hann ætli að drepa sig. Reis þar bóndinn upp sjálfur og hafði prestur lamið sundur krukkuna á hausnum á honum. Þekkir bóndi þar prest og sér að hann hefir verið með hvítu krukkuna sína stóru er bónda hafði alltaf þókt svo vænt um, og biður hann aldrei þrífast fyrst hann sé sá óþokki að snata í búr á náttarþeli og veita sér aðgöngu í lauginni og biður hann að verða burtu af heimili sínu hið bráðasta og hugsa aldrei framar til ráðahags við dóttur sína. Prestur lét sér þetta að kenningu verða og fór þegar af stað um nóttina og heim til sín og þóktist góðu bættur að bóndinn dró hann ekki fyrir dóm og lög fyrir stuld og áverka.
En það er af vinnumanni prests að segja að hann biður bóndadóttur um morguninn og var því máli vel svarað. Gekk hann síðan að eiga hana og unnust þau bæði vel og lengi.