Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/þegar skollinn lá í vöggu
Þegar skollinn lá í vöggu
Það er kallað kerlingaraup og karlaraup og sagt að maður sé kominn á raupsaldurinn þegar maður fer að eldast. Einkum er kerlingunum við brugðið að þær segi að allt hafi verið dýrðlegra í æsku sinni en nú sé. „Það var öðruvísi í ungdæmi mínu,“ segja kerlingarnar. Kvenfólkið eignar körlum allar slíkar sögur og kallar karlasögur og karlaraup, en við köllum það kerlingasögur og kerlingabækur.
Ein af mörgum slíkum sögum er sögð á Breiðafirði að kerling hafi sagt undir Jökli. „Það var öðruvísi í mínu ungdæmi en nú,“ sagði hún, „þegar þeir réru á daginn, þá rumdi í árunum: umrum, glumrum, en nú tístir í þeim: urrum, smurrum. Þegar þeir komu í land á kveldin og fóru úr skinnklæðunum sögðu þeir við okkur: erðum, serðum, en nú veina þeir og segja: kútinn, kútinn. Þá var allur Breiðifjörður í ljá. Þá lá andskotinn í vöggu, löngu fyrir guðs minni.“ Því er það máltak að það hafi verið löngu fyrir guðs minni eða þegar skollinn lá í vöggu sem aldrei hefur verið og ekki er nema karlaraup eður kerlingabók.