Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/„Ekki braut hann brauðið“

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Ekki braut hann brauðið“

Einu sinni ætlaði kerling ein til altaris. Urðu tjöld ferðamanna á vegi hennar; leit hún á farangur þeirra og sá þar brauðkvartel. Tók kerling það, en átti bágt með að koma því á bak, hafði það þó með erfiðismunum. Á leið hennar var kelda og lá fararskjóti hennar þar í og hraut kvartelið ofan og brotnaði. Hraut brauðið ýmsa vega svo kerling fór að safna saman. Varð hún að fara úr niðurhlut sínum og láta þar í brauðið. Faldi hún fúlguna undir rofbakka einum og hélt áfram til kirkjunnar. Er hún kom í kirkjuna mælti prestur þessi orð: „Braut hann brauðið –.“ „Því lýgurðu,“ segir kerling; „ekki braut hann brauðið, en stampinn braut hann,“ því hún hélt prestur mundi vera að segja fólki af ferðum hennar.