Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Af Jóni karli
Af Jóni karli
Jón er maður nefndur, hann átti heima [í] Auðkúlusókn í Húnavatnssýslu; hann var efnaður bóndi. Eitt sinn þurfti hann að fara með barn til skírnar heim að Auðkúlu, en á leiðinni þurfti hann af hestbaki eitthvað nauðsynja sinna. Lagði hann þá barnið á þúfu, en mundi ei að taka það aftur. Sté svo á bak og reið heim að Auðkúlu, finnur prestinn og skrafa þeir lengi saman án þess að Jón nefndi nokkurt erindi sitt þangað. Spyr þá prestur hann hvert hann ætli að fara og rankar þá Jón við erindinu, segir það presti og flýtir sér á stað til að leita að barninu. En á meðan fóru ferðamenn sama veg og fundu barnið og fluttu aðra leið heim að Auðkúlu og skírði prestur það. En seint um kvöldið kom Jón gamli aftur og segir barnið sé ekki að finna og hafi hrafnarnir líklegast étið það. Fékk hann þá ákúrur hjá presti fyrir alla frammistöðuna.
Einu sinni langaði Jón í egg því hann vildi heldur taka þau en láta hrafnana stela þeim. Svo er lagað að nærri Auðkúlu er vatn mikið (máske Svínavatn), en í þessu vatni er varphólmi sem þó var ekki eign Jóns. Hann átti gráa hryssu er hann treysti mjög vel og fór því eina nótt á stað með Gránu og ætlaði að láta synda í varphólmann sem enginn fór þó öðruvísi en á byttu. Hönum gengur nú allt vel fyrst, en þegar Grána er komin spölkorn fannst honum að henni fara að veita örðugt og missir hann nú huginn og fer að beygja á hlið og vill komast á sama land. En það finnst hönum að merin muni fyrri sökkva. Heitir hann þá á kirkjuna (að Auðkúlu?) og er þá sem Gránu aukist ásmegin og kemst kall slysalaust á land og heim til sín. Svo hugsar hann að efna heit sín við heil. kirkjuna og begerir frá útlöndum nýtt rykkilín og eins konar skilirí til að hengja í kirkjuna og þriðja hökul og á hönum skyldi standa fyrst Jón, svo Sigríður (konunafn hans), en seinast Jesús neðan undir.