Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Af hverju er þá rifið?

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Af hverju er þá rifið?“

Einu sinni voru hjón á bæ; þau áttu mörg börn, en fátt höfðu þau vinnufólk og þurftu litlu til þess að kosta, enda voru þau vel við álnir, en bóndinn þótti í meira lagi aðsjáll. Hann hafði þann sið að hann tók til allan mat og skammtaði konu sinni út á pottinn í það og það sinnið; þar eftir var annað og var konunni mikil raun að nirfilskap hans. Einhverju sinni bar svo við að bóndi lézt þurfa að fara að heiman og vera burtu tvo daga. Þegar hann er farinn burtu segir húsfreyja smalanum að reka heim féð; segist hún ætla að taka úr því bezta sauðinn, slátra honum og taka með því hungursmál úr börnunum og fólkinu. Smalinn gerir svo og er sauðurinn skorinn og lagður í pottinn og borðaður um kvöldið með góðri matarlyst. Þegar búið er að borða og koma öllu fyrir er barið. Konan veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið að þar skuli vera kominn næturgestur því það var ekki vani. Hún hugsar að það muni vera bezt að hún fari til dyranna. En áður en hún lýkur upp hefur hún þó þá varúð við að hún spyr hver úti sé.[1] Segir þá bóndi til sín heldur dræmt. Lýkur hún þá upp bæjarhurðinni og segir að hann hafi verið fljótari í ferðum en hann hafi ætlað sér. Bóndi gegndi því engu, en snarast innar hjá henni og þegar hann kemur inn í baðstofu gætir hann nákvæmlega að öllu, en finnur enga nýlundu á neinu. Barn þeirra hjóna gekk með hjá rúmi þeirra; það hélt á kroppuðu sauðarrifi. Bóndi tekur rifið af barninu, skoðar það í krók og í kring og segir: „Af hverju er rifið að tarna?“ Konan segist ekki vita það hvar barnið hafi fundið það, undir rúminu eða á bak við það. Bóndi segir að það sé frá um það að rifið hafi ekki legið lengi í sorpi, það sé glænýtt. Ekkert segist konan vita um það; býður hún svo manni sínum að borða. Hann sinnir því ekki, en segir: „Af hverju er þá rifið?“ En konan bað hann að stagast ekki lengur á rifinu, því hann stríddi sjálfum sér mest með því að vilja einkis neyta; býður hún honum þá að fara og hvíla sig. En hann hefur allt á hornum sér og alltaf sama viðkvæðið við allt sem hún býður honum: „Af hverju er þá rifið?“ Þó drattast hann til að hátta um síðir.

Morguninn eftir fer hann ekki á fætur, liggur með háhljóðum nokkra daga og deyr svo. Sendir þá húsfreyja smalann eftir presti og hreppstjóra og fleiri nefndarbændum í sveitinni að segja þeim að bóndi sinn sé látinn og biðja þá að koma til hennar því hún þurfi að tala við þá um útförina. Smalinn fór og mennirnir komu sem hún hafði sent eftir. Húsfreyja bauð þeim inn í baðstofu, þangað sem líkið var, og sagði að hún yrði nú að biðja þá að gera svo vel að hjálpa sér að koma manninum sínum sem fyrst í jörðina því þar væru lítil húsakynni svo hún ætti örðugt með að hafa líkið lengi í bænum. Hún bað þá og að standa fyrir allri útförinni og spara ekkert til hennar svo að maðurinn sinn yrði sómasamlega grafinn og sjálfir skyldu þeir setja fullt upp á fyrir ómak sitt, því svo væri fyrir þakkandi að þau hefðu nóg efni til þess. Komumennirnir hétu henni liðsemd sinni og höfðu nú hraðann á borði svo að bóndi yrði kistulagður og líkið flutt til kirkju. Prestur hélt yfir honum ræðu og svo var líkið borið til grafarinnar. En þegar kistan er komin niður í gröfina gengur húsfreyja að gröfinni, hefst upp úr eins manns hljóði og segir: „Hvern andskotann hugsarðu, maður, að láta kviksetja þig lifandi?“ Gegnir þá bóndi úr kistunni og segir: „Af hverju er þá rifið?“ Var kistan svo dregin upp aftur og opnuð og bóndi hresstur við, því æðimikið var af honum dregið. Taldi svo prestur og aðrir nefndarmenn um fyrir honum að hann skyldi ekki láta nápínuskapinn ráða svo fyrir sig að hann gerði bæði sér og þeim sem hann ætti bezt upp að inna lífið leitt. Við þessa skráveifu tók bóndi stakkaskipti og varð allur annar maður og bar aldrei konu sína ofurráða um nokkurn hlut. Eftir það lifðu þau saman glöð og ánægð og þóttu mestu sómahjón. Bóndi spurði aldrei um rifið framar þangað til hann dó í annað sinn skaplega og skikkanlega.

  1. Það þykir ósvinna í sveitum ef barið er að dyrum eftir dagsetur á kvöldum, heldur skal þá fara upp á baðstofuglugga og guða. En ef barið er spyr sá sem til dyranna fer hver úti sé áður en upp er lokið svo að hann hleypi engum ómildum inn í bæinn. Þegar barið er að dyrum eru barin þrjú högg, en draugar berja aðeins eitt högg eða tvö og þekkjast á því.