Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Af sauðamanni og bónda

Einu sinni voru tveir bændur fyrir austan; hét annar Guðmundur, en hinn Sigurður. Þeir voru nágrannar og lágu saman lönd þeirra og var skammt milli bæjanna.

Guðmundur var auðigur vel; hann átti jörðina sem hann bjó á, og margt ganganda fé, gekk það mjög sjálfala. Guðmundur var svo mikill nirfill að hann tímdi engum manni að vera gott og aldrei hýsti hann mann um nætursakir. Hann var kvongaður og átti eina dóttur frumvaxta. Vinnukonu hélt hann eina og eigi önnur hjú. Fé hans gekk mjög í landi Sigurðar bónda og skemmdi þrávalt fyrir honum, bæði tún og engjar, og svo annvirki; og vildi Guðmundur það aldrei neinu bæta þó að Sigurður leitaði þess, og svaraði jafnan illu til. En Sigurður hafði ei megn til af sér að hrinda þessum yfirgangi því að hann var fátækur barnamaður og einvirki; og fór svo fram um hríð.

Einu sinni fór til Sigurðar bónda vinnumaður, ungur og röskur; hann hét Ólafur. Hann var greindur maður og kallaður brögðóttur nokkuð þegar hann vildi beita því. Þegar Ólafur var farinn að kynnast við og sá hvern usla að fénaður Guðmundar bónda gerði í landi Sigurðar húsbónda síns veitti hann honum ámæli að hann skyldi ei hrinda af sér slíkum yfirgangi og væri ei von til að hann þrifist við aðrar eins búsifjar. „Ég er þrávalt búinn að reyna það,“ segir Sigurður, „en það tjáir ekki sakir ofstopa Guðmundar því að ekki er annað af honum að hafa en illt eitt.“ „Ekki trúi ég því,“ segir Ólafur, „að öllu óreyndu; skal ég hafa svo mikið gott af Guðmundi sem ég vil.“ En Sigurður vildi ei heyra það; og þreyttu þeir þetta með kappmælum þangað til þeir veðjuðu. Lagði bóndi við fjörutíu dali, en Ólafur höfuð sitt, því hann var örsnauður og hafði ei öðru að veðja.

Eftir þetta tók Ólafur að venja komur sínar til Guðmundar og ræða við hann í ýmsa heima. Reyndi hann á allar lundir til að skjalla hann og koma sér í mjúkinn hjá honum; en það kom allt fyrir ekki. Guðmundur tók honum að sönnu allvel, en aldrei vék hann honum neinu góðu hvernig sem á stóð. Fór Ólafi nú að lítast svo á að það myndi nokkru torveldara en hann hafði hugsað, að hafa gott af Guðmundi. Oft bauð Sigurður Ólafi að laus skyldi vera veðjanin, en hann neitaði því og sagði enn lítið til reynt.

Ólafur geymdi fjár Sigurðar bónda um veturinn; stóðu fjárhúsin eigi allnærri bænum, og var skemmra frá þeim til bæjar Guðmundar og betra að rata þangað í hríðum. Einu sinni á jólaföstunni gerði á mikla hríð svo að lítt var ratandi milli bæja. Ólafur hugsar sér þá að reyna enn á þegnskap Guðmundar. Hann gengur því til bæjar hans um kvöldið þegar hann er búinn í húsum sínum. Hann vissi það að Guðmundur hafði brundhrúta sína í kofa einum við heygarðinn þar heima hjá bænum. Hann fer nú í kofann, tekur þar vænsta hrútinn og leiðir hann út. Síðan þvælir hann hrútinn í fönninni þangað til hann er allur orðinn fannbarinn. Eftir það fer hann með hrútinn heim að bæjardyrum og ber þar á dyr. Hann bíður lengi og kemur enginn út. Hann ber þá í annað sinn og nokkuð fastara, en það fer á sömu leið. Að lyktum ber hann í þriðja sinn svo hart að brothljóð var í hverju tré. Heyrir hann þá um síðir að gengið er innan bæinn, og heldur seint, og því næst er lokið upp hurðu í hálfa gátt. Rekur Guðmundur bóndi þar út höfuðið og spyr hver það sé sem ætli að brjóta upp fyrir sér bæinn. Ólafur segir til sín og heilsar Guðmundi ofur vingjarnlega. Hann tekur stutt kveðju hans. „Þetta hefi ég fegnastur orðið að ná mannabyggðum,“ segir Ólafur; „ég hefi verið að villast með hrútinn hans húsbónda míns síðan fyrir rökkur í dag; ætlaði ég að leiða hann heim með mér af húsunum, því það átti að fara að taka hann inn. Er nú hrúturinn orðinn uppgefinn og ég uppgefinn að draga hann eftir mér í moldviðrinu og ófærðinni. Þakkaði ég því guði fyrir þegar ég rakst hérna á bæinn; og ætla ég nú að biðja þig, Guðmundur minn, að gera svo vel og lofa mér að liggja inni hjá þér í nótt og gefa mér ofurlitla tuggu handa hrútnum.“ „Nei það er af og frá,“ segir Guðmundur, „ég hýsi enga slæpingja; þú getur farið heim til þín; það er ekki svo dimmt núna; eða þá legið í fjárhúsunum þínum.“ Og með það ætlar Guðmundur að reka aftur bæinn. En Ólafur varð skjótari og hleypur á milli hurðarinnar og stafsins með hrútinn, heldur harðfengilega. Þegar bóndi sér þetta sleppir hann hurðinni og snautar þegjandi inn aftur. Ólafur labbar á eftir með hrússa. Þegar hann kemur í baðstofuna heilsar hann upp á fólkið; taka þær konurnar kveðju hans, og þó dauflega, en bóndi ekki. Pallur var í öðrum enda baðstofunnar og þar sat fólkið uppi; þar fyrir framan voru götupallar, en skák hinumegin.

Ólafur hallar sér nú upp við skákina; stendur hann þar góðan tíma alfönnugur og heldur í hrútinn og orti enginn maður orða á hann. Loksins tekur Ólafur til orða og segir við hrútinn: „Það vildi ég hrússi minn að ég hefði núna hjá mér hníf og áhöld, þá skyldi ég skera þig og éta þig í kvöld; því að ég veit af því að hann húsbóndi minn vill það æði mikið heldur að ég geri mér gott af þér en ég drepist hérna úr hungri í nótt.“ Þegar bóndi heyrir þetta gegnir hann til og segir: „Ég held það sé nú hægast að ljá þér hnífbusa ef þú vilt, og svo eitthvert botél undir slátrið.“ „Ég tek það til stærstu þakka, Guðmundur góður,“ segir Ólafur, „ef þú vilt gera svo vel; en ég er nú ekki hólpinn fyrir það því ég hefi aldrei skorið skepnu á ævi minni og þori þess vegna með engu móti að byrja á hrútnum; ég hefi líka heyrt marga segja það að það sé miklu meiri vandi að skera hrúta en aðrar skepnur.“ „Ekki skal það í vegi standa,“ segir bóndi, „ég skal bregða fyrir þig á barkann á hrútnum.“ Ólafur verður þessu mjög feginn. Lætur nú Guðmundur sækja fram trog; því næst tekur hann hníf ofan úr sliðru og staulast ofan á gólfið. Sker hann nú hrútinn og heldur Ólafur fótunum, en vinnukonan hrærir í blóðinu. Eftir það gerir Ólafur til hrútinn; en að því búnu segir hann við konu Guðmundar: „Það vildi ég heillin góð að þú vildir nú hjálpa upp á mig og hleypa fyrir mig skrokkinn þó það sé nú of mikil áníðsla, og geyma slátrið til morguns.“ Hún segir það sé velkomið. Brytjar Ólafur síðan kroppinn og hjálpar henni til að bera hann fram og svo slátrið; en vinnukonan hleypir úr innýflunum. Fer nú bóndi að verða málhreifur við Ólaf og biður vinnukonuna að hjálpa honum úr votu og ljá honum eitthvað þurrt til að fara í; hún gerir það. Að því búnu segir bóndi við Ólaf að honum sé bezt að halla sér þarna upp í rúmið og láta sér hlýna. Ólafur tekur það til þakka.

Eru þeir nú að skrafa og skeggræða í alla heima þangað til húsfreyja kemur inn vagandi með trog í fangi kúfað af glóðheitu hrútsketinu og fær Ólafi. Hann tekur við troginu og þakkar henni með miklum virktum. Ætlar hann nú að taka til matar og tekur upp eitt stykkið, en leggur það allt í einu niður aftur og segir: „Ég trúi mér ætli þá að verða óglatt; það er víst af vosbúðinni og þreytunni sem í mig kom í kvöld.“ Hann setur nú frá sér trogið. Þau hjónin segja það sé bágt að hann skuli ei geta tekið sér ofurlítinn bita sér til hressingar, en hann segist enga lyst hafa á því. Býður þá húsfreyja honum að geyma fyrir hann trogið til morguns. Hann segist feginn vilja að hún taki við því; „en ekki held ég,“ segir hann, „að ég fari að flytja það heim með mér, ketið af honum hrússa, og þarftu ekki að skila mér því aftur; það er ekki nema sinn bitinn handa hverju ykkar og held ég það sé ekki of mikið fyrir næturgreiðann.“ Hýrnar nú heldur en ekki yfir þeim hjónunum og þakka honum mikillega fyrir. Sezt það nú allt saman að troginu og étur lyst sína; en síðan ber húsfreyja fram leifarnar. Guðmundur segir þá við hana: „Þú verður heillin mín að láta hana Guddu skreppa snöggvast fram í fjós eftir nýmjólkursopa handa honum Ólafi. Það eru ósköp að hann skuli á engu geta nærzt.“ Hún segir það sé sjálfsagt. Er nú sótt full kanna af spenavolgri nýmjólk. Segja þau hjónin að Ólafur skuli nú bera sig að súpa þennan dropa ef honum kunni að skána við það. Hann tekur við könnunni og sýpur úr henni og þó með dræmingi, eins og hann geti það varla fyrir velgju. Síðan leggst hann niður og breiðir vel ofan á sig.

Líður nú vakan fram að fjóstíma. Fara þær þá í fjós bóndadóttir og vinnukona. Er þá enginn maður vakandi eftir í baðstofunni nema Ólafur því að bóndi svaf, en húsfreyja var fram í eldhúsi við matseld. Nú klæðir Ólafur sig og gengur síðan út að skoða til veðurs. Eftir það snýr hann inn aftur; gengur hann þá um leið inn í eldhúsið til konu Guðmundar og fer að skrafa við hana í mesta bróðerni, og þar kemur niður ræðu hans um síðir að hann segist skuli gefa henni hrútsslátrið ef hún vili lofa sér að hvíla hjá sér þarna í eldhúsinu. Henni þótti slátrið gott og fengmikið og kaupa þau þessu. En er þau höfðu lokið leik sínum fer Ólafur inn aftur og leggst niður í rúm sitt og lætur sem ekki sé í orðið. Því næst er skammtað og háttað. Sváfu hjónin uppi á pallinum, en þau Ólafur og bóndadóttir fyrir framan á götupallinum, hvort á móti öðru. Vinnukonan svaf yfir á skákinni.

Þegar háttað var og allt komið í kyrrð og næði, þá læðist Ólafur yfir um til bóndadóttur og segir henni hljóðlega að sér leiðist svo mikið af því hann geti ekki sofið; segist hann skuli gefa henni slátrið og sviðin af hrútnum ef hún lofi sér nú upp í hjá sér sér til skemmtunar. Henni þykir gjöfin góð og segir hann velkominn. Þegar þau hafa skemmt sér eins og þeim líkaði laumast Ólafur aftur yfir í sitt rúm. Lætur hann nú líða dálitla stund þangað til hann gezkar á að bóndadóttir muni sofnuð; þá fer hann yfir í endann til griðku, og fara þeirra skipti á sama hátt að hann gefur henni slátrið, en hún lofar honum að leika sér. Eftir þetta leggst Ólafur niður og liggur nú kyr fram undir dag; fer hann þá á flakk og klæðir sig og vaknar þá Guðmundur bóndi. Hann segir þá: „Það er verst Ólafur minn að þú fær ekkert gott áður en þú fer; þú verður að doka dálítið við þangað til kvenfólkið kemur á fætur svo þú getir fengið ofurlítinn mjólksopa, þó ekki sé annað.“ „Blessaður Guðmundur minn, hafðu engin orð um að tarna,“ segir Ólafur, „ég á ekki svo langt heim. Ég verð að flýta mér, því ég veit að fólkið er orðið dauðhrætt um mig heima og heldur sjálfsagt að ég hafi drepið mig í hríðinni í gærkveldi.“ Því næst kveður Ólafur með mestu virktum og heldur nú heim til sín. Sigurður verður feginn heimkomu hans og spyr hvar hann hafi verið um nóttina; hvort hann hafi alltaf legið í fjárhúsunum. „Nei, nei,“ segir Ólafur, „ég átti nú skárri nótt en það.“ „Hvar var[s]tu þá?“ segir Sigurður. „Ég var hjá honum Guðmundi nágranna okkar og átti allra beztu nótt, því ég fékk þar allt það gott sem ég vildi þiggja.“ Sigurður vildi ei trúa þessu. Segir þá Ólafur honum upp alla sögu eins og gengið hafði frá því hann tók hrútinn og þangað til hann fór frá Guðmundi aftur. Sigurður verður nú hreint forviða og veit ekki hvað hann á að segja; þykir honum Ólafur heldur hafa leikið á Guðmund og segir hann eiga hjá sér veðféð. „Eigðu sjálfur fé þitt,“ segir Ólafur, „ég ætlaði mér aldrei að féfletta þig, en ég vildi aðeins færa sönnur á mál mitt og það þykist ég nú hafa gert.“ Sigurður lét það á sannast og þakkar Ólafi bæði fyrir gjöfina og bragðið.

En nú er að víkja aftur til Guðmundar bónda, að þegar Ólafur er farinn fer vinnukonan á fætur og fram í eldhús og fer að þvo innan úr hrútnum. Litlu síðar kemur bóndadóttir fram og segir við griðku: „Því ert þú farin að þvo slátrið mitt; hvað átt þú með það?“ „Slátrið þitt!“ segir griðka, „ætli þú eigir ekki dálítið með það! sem greyið hann Ólafur gaf mér það í gærkveldi.“ „Það veit ég þú lýgur,“ segir bóndadóttir, „hann gaf mér það, en ekki þér.“ Út úr þessu fara þær að rífast svo þau hjónin heyra háreystið inn í baðstofu. Konan flýtir sér nú á fætur, skundar fram í eldhúsið og spyr um hvað þær séu að rífast með slíkum hávaða. Þær svara báðar senn og þykist hvor um sig eiga slátrið. „Haldið þið ykkur saman,“ segir húsfreyja, „og látið þið slátrið vera grafkyrt. Hann gaf mér það hann Ólafur, en ekki ykkur.“ Þegar griðka heyrir þetta þagnar hún fyrst; en bóndadóttir verður djarfari og segir við móður sína: „Fyrir hvað gaf hann þér það móðir mín?“ „Hvað varðar þig um það stelpan þín? Hann gaf mér það fyrir ofurlitla þægð sem ég sýndi honum í gærkvöldi hérna í eldhúsinu.“ Þykjast þær nú allar sjá hvernig Ólafur hefir leikið á þær og segja nú hver annari hvað hann hafi fengið hjá þeim fyrir slátrið; eru þær nú að kífa um þetta fram og aftur. En á meðan þær létu dæluna ganga hafði bóndi læðzt ofan og staðið á hleri; hafði hann því heyrt alla viðræðu þeirra. Verður hann nú bálreiður og rýkur til þeirra inn í eldhúsið og húðskammar þær allar fyrir vitleysuna og allt þetta athæfi, svo að þær koma hvorki fyrir sig orði né eiði. En þegar hann er búinn að rausa stundarkorn, þá verður honum litið á höfuðið af hrútnum sem lá þar á gólfinu. Hann tekur upp höfuðið og lítur á eyrun; sér hann þá markið sitt á eyrunum og þykist nú þekkja að þetta sé höfuðið af vænsta hrútnum sínum. Verður honum nú orðfall bæði af hryggð og bræði; hleypur út í kofann þangað sem hrútarnir áttu að vera og vantar þá einn hrútinn, þann sem beztur var. Þykist nú Guðmundur bóndi sjá allt hið sanna hvernig Ólafur hefir leikið á þau öll saman. Datt honum þá fyrst í hug að stefna Ólafi fyrir sauðaþjófnað; en þegar hann fór að gá betur að þá sá hann fljótt að það myndi eigi tjá þar sem Ólafur skar hvorki hrútinn sjálfur né fénýtti neitt af honum. Tók hann því þann kostinn sem skástur var, að þegja hreint yfir þessari svívirðing og bera harm sinn og skaða í hljóði. En svo er sagt að eftir þessa ráðningu yrði Guðmundur allur betri maður en áður og legði mikið niður nirfilskap og ágengni. Er svo þessari sögu lokið.