Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Aldrei skal ég stela
„Aldrei skal ég stela“
Einu sinni var þjófgefin kerling á kirkjustað; hún lék það að list og vana að stela ull úr kistu úti á kirkjulofti. Einu sinni er hún fór út í þeim vændum var henni veitt eftirför og heyrðu menn þá að hún sagði þegar hún gekk inn í kirkjugarðinn:
- „Jesús gekk inn í grasgarð þann.“
Þegar hún kom að kirkjudyrunum sagði hún:
- „Að luktum dyrum kom lausnarinn.“
Þegar hún kom inn á kirkjugólfið sagði hún:
- „Inngang bæði og útgang minn.“
Þegar hún fer upp í kirkjuloftsstigann sagði hún:
- „Upp á fjallið Jesús vendi.“
Þegar hún var komin upp á loftið og lauk upp kistunni sagði hún:
- „Opnaði sjóðinn sinn.“
Þegar hún var búin að ljúka upp kistunni segja sumir að hún hafi signt sig og sagt: „Aldrei skal ég stela.“[1] En þegar hún var búin að taka viskarkorn úr kistunni heyrði hún tófu gagga. Þá segir kerla: „Og eina viskuna segir hann enn, blessaður.“ Þegar hún var komin ofan af loftinu aftur segir hún:
- „Ofan af himnum hér kom ég.“
Síðan fer kerling út og segir um leið:
- „Út geng ég ætíð síðan.“
- ↑ Aðrir segja að önnur kerling hafi sagt það, er óð yfir á með þjófstolið fé, en hét þessu fyrir sér, er hún hélt hún mundi drukkna. En þegar hún komst að landi, hafi hún átt að bæta þessu við: „Vænt' ég, vænt' ég.“