Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Andlát föður þeirra
Einu sinni sem oftar réri Þorsteinn karl á sjó með þá alla syni sína. Höfðu þeir með sér blöndukút til að drekka úr og var hann látinn vera frammi í bátnum. Fá þeir nú góðan afla. Þorsteinn karl sat aftur á bita; fer hann nú að þyrsta mjög og segir: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, ljáiði mér kútinn.“ Þá gegnir einn bróðirinn til og segir: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor vill fá kútinn.“ Nú er seilzt eftir kútnum; þá segir annar: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor vill fá kútinn, en ekki það sem í honum er.“ Keppa þeir nú allir við að drekka upp úr kútnum, tæma hann og rétta hann svo kallinum, en hann er þá út af hniginn og tekur ekki við kútnum. „Hérna er kúturinn, faðir vor,“ segja þeir, en hann gegnir ekki. Fara þeir þá að gá betur að kallinum. Loks segir einn þeirra: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor er dauður.“ Þá segir annar: „Ertu dauður, faðir vor?“ Þá segir hinn þriðji: „Segðu til þín, faðir vor, ef þú ert dauður.“ En engu gegnir karlinn. Loks gegnir hinn fjórði og segir: „Já, víst hefir faðir vor þyrstur verið, fyrst hann er dauður.“ Með það héldu þeir í land.