Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Arnbjörg fótalanga
Arnbjörg fótalanga
Fyrir nokkrum árum var kerling norður í Skagafirði er hét Arnbjörg. Hún var ófríð og illa vaxin, há og grönn og útlimamikil. Var hún því kölluð Arnbjörg fótalanga. Stundum var hún líka kölluð Álfa-Arnbjörg því hún þóttist hafa mök við huldufólk. Kerling þessi þóttist skírlíf mjög og lét sem sér væri mjög illa við alla karlmenn fyrir það hvað þeir væru gjarnir á að tæla kvenfólk, og ætluðu þó flestir að hún hefði lítið af því að segja af eigin reynslu. Einhvern tíma var hún á vergangi hjá Jóni bónda Bjarnasyni á Egilsholti (Eyhildarholti). Kom það einhvern tíma til umtals milli hans og Finnboga vinnumanns hans hvort Arnbjörg mundi vera svo stöðug sem hún lét, og tókst Finnbogi á hendur að reyna það. Fór hann að gjörast stímamjúkur við kerlingu. Brást hún fyrst reið við þegar aðrir sáu, en gaf sig þó stundum á eintal við hann. Lézt hann þá vera niðursleginn og feilinn. Einhvern tíma fór hún að ganga á hann hvað að honum gengi. Finnbogi varpaði þá öndinni mæðilega og kvað:
- Yndishótin eru fín
- undir snótar vanga.
- Einkabótin ertu mín,
- Arnbjörg fótalanga.
Arnbjörg brást reið við fyrir það að auknafn hennar var í vísunni, en sló því við að hún vildi ekkert karlmannaglens. Samt gaf hún sig fljótt aftur á tal við hann; kvað hann þá aftur:
- Mæðan gengi úr minnisstig
- mér sem lengi trega,
- ef ég fengi að eiga þig,
- Arnbjörg spengilega.
Um kvöldið eftir beiddi Finnbogi bónda að láta rökkursvefn vera í lengra lagi og hafa snæri milli rúma þeirra svo hann gæti gjört hann við varan þegar hann vildi. Í rökkrinu kom Arnbjörg að rúmi Finnboga, skreiddist upp fyrir hann og undir fötin hjá honum. Þá kippti Finnbogi í snærið, en bóndi reis upp, kveikti ljós við eldfæri og gekk að rúmi Finnboga. Sá hann þá hvar húfuskott Arnbjargar stóð upp undan brekáninu. Svipti bóndi því ofan af þeim og var augnaráð Arnbjargar þá heldur ófrýnilegt. Bóndi lézt vera reiður mjög og vandaði um við bæði, en Arnbjörg kvað álfana hafa borið sig sofandi yfir í rúm vinnumannsins. Um kvöldið hafði hún sig þó burt af bænum og kom þar ekki lengi síðan, en hafði áður gjört sig líklega til að setjast upp.