Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Barnsskírnin
Barnsskírnin
Einu sinni bjuggu öldruð hjón á bæ, þau áttu ekkert barn, en þegar konan var komin undir fimmtugt varð hún þunguð, af hvorju hjónin glöddust mikillega. Konan fæddi barnið og vildi fram yfir alla hluti að hún sjálf fengi að halda því undir skírn. Var svo látið bíða að skíra barnið þar til hún gat stigið af sæng. Svo var prestur sóktur, en þegar hann kom kvörtuðu þau um við prestinn að þau kynnu ekki að halda barni undir skírn, en vildu þó fyri öngvan mun sleppa af því. Prestur hafði komið með tvo menn með sér að vera skírnarvotta, en þó lét hann eftir foreldrunum að vera það og sagði þeim að þau skyldu haga sér eftir því sem hann spyrði þau. Nú byrjaði prestur að spyrja þau og segir: „Er barnið áður skírt?“ Þá anzar kall rámur: „Er barnið áður skírt?“ og kelling skrækrómuð: „Er barnið áður skírt?“ Þá hætti prestur við þessa spurningu og spyr: „Hvað á barnið að heita?“ Kall gegnir í sínum rómi: „Hvað á barnið að heita?“ kelling í sama máta: „Hvað á barnið að heita?“ Þá segir prestur: „Takið þið barnið af þeim.“ Þá segir kall eins og prestur: „Takið þið barnið;“ kelling eins: „Takið þið barnið.“ Þá segir prestur: „Svei ykkur báðum.“ Kall: „Svei ykkur báðum.“ Kelling: „Svei ykkur báðum.“
Þá var þeim vikið frá, en vottarnir tóku við og er ei annars getið en þau þegðu þá og barnið hlyti rétta skírn.