Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Bjarneyjahjónin
Bjarneyahjónin
Fyrir aldamótin seinustu bjuggu hjón nokkur í Bjarneyjum; þau hétu Jón Einarsson og Valgerður Bjarnadóttir. Um sama leyti bjó þar kona sú sem Guðríður hét og var Finnbogadóttir; maður hennar hét Sigurður Bæringsson. Guðríður var væn kona og skynsöm; hún átti drengi tvo er við söguna koma eftir fyrri mann sinn sem Jón hét. Drengirnir hétu Guðmundur og Jón, báðir efnilegir. Jón var átta vetra, en Guðmundur lítið eldri, og vóru þeir svo Valgerður heyrði að gamna sér með stöku þessari:
- Margur girnist meir en þarf,
- maðurinn fór að veiða skarf
- og hafði fengið fjóra,
- elti þann fimmta og í því hvarf
- ofan fyrir bjargið stóra.
Segir þá Valgerður: „Ekki skammizt þið ykkar að fara svona með guðsorð.“ „Það er ekki guðsorð,“ segir Jón, „það er vísa.“ „Ekki er það satt,“ segir Valgerður; „það er vers úr Hugvekjusálmunum.“[1] Jón þrætir á móti. Þá segir Jón maður Valgerðar við drenginn: „Skammastu þín, hnokkinn þinn, að þú skulir þræta ofan í hana Valgerði mína, gamla konuna. Ég skal koma þér í ólukku hjá henni móður þinni, ég veit hún líður ykkur ekki þetta.“
Öðru sinni bar svo að að presturinn síra Þorkell Guðnason[2] kom til húsvitjunar í Bjarneyjum. Spurði hann við húsvitjunina konu nokkra sem Guðrún hét og var Magnúsdóttir hvað boðið væri í öðru boðorðinu. Guðrún var fáfróð og svarar engu, en Valgerður segir: „Boðið í öðru boðorðinu, það er að drýgja hórdóm í guðs nafni.“ „Ekki er það satt,“ segir prestur, „því að drýgja hórdóm er afbrot við sjötta boðorðið.“ „Það er sem ég segi,“ mælti Valgerður, og féll svo þetta mál niður svo búið. En um kvöldið þegar heim var komið frá fræðalestrinum segir Jón maður hennar: „Það mátti sannast í dag að guð fer ekki að mannvirðingum. Færri átti hún Valgerður klæðisfötin í kistunni en hún Guðrún Magnúsdóttir; þó gat hún leyst úr því sem hin gat ekki og komið honum síra Þorkeli til að þegja.“
Í Bjarneyjum var kona nokkur á dögum Jóns og Valgerðar sem Guðrún hét og var Ísaksdóttir. Maður hennar hét Ólafur Jónsson. Guðrún ól eitt sinn stúlkubarn og þegar rætt var um hvað barnið skyldi heita segir einhver sem viðstaddur var: „Látið þið heita Abigael, það er ofur fallegt.“ Þá segir Guðrún: „Þó ég sé aum og vesöl vil ég ekki láta barn mitt heita eftir bannsettum tröllunum.“ Þá segir maður hennar: „Hún var lík því ein drottningin hans Davíðs.“ „Jæja,“ segir þá Guðrún, „fyrst þið viljið svo hafa það, þá láti þið hana heita Jessabel þá.“
Einu sinni var síra Eggert Hákonarson[3] í húsvitjun í Bjarneyjum að yfirheyra dætur Guðrúnar Ísaksdóttur og kunnu þær ekkert. Prestur fór að vanda um þetta við Guðrúnu og segir: „Þó þú kennir þeim ekki annað geturðu kennt þeim þetta: Faðir í þínar hendur fel ég minn anda.“ Þá segir Guðrún: „Það er ekki fyrir prestinn að ætla það upp á mig að kenna þessar nýju bænir.“