Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Detti nú fótur
„Detti nú fótur“
Það voru einu sinni karl og kerling í koti sínu vestur í Aðalvík svo bláfátæk að þau áttu ekkert í eigu sinni nema eina á mórauða. Þau skáru hana alltaf þegar þau voru matarlaus, rökuðu gæruna til klæða, en brutu ekkert bein, heldur köstuðu þeim í gæruna. Lifnaði hún svo alltaf aftur. Þær stundir sem þau höfðu eitthvað til bjargar mjólkuðu þau hana.
Einu sinni kom til þeirra gestur um vetrinn. Gáfu þau honum kjöt um kvöldið af Morsu, en vöruðu hann sterklega við að brjóta ekki beinin. En er maðurinn hafði lokið máltíð sinni spretti hann hníf sínum í langlegginn og braut til mergjar. Urðu þau hjónin næsta stúrin af þessu, en hann bað þau að harma þetta ekki; skyldi hann gefa þeim fullsælu fjár og allt gott ef þau kynnu sér í nyt að færa; skyldu þau festa höfuð og fætur af kindinni upp í bæjardyr og óska sér jafnmargar óskir. Þau þökkuðu gesti sínum fyrir. Að svo mæltu kvaddi hann þau með virktum.
Að næsta morgni þegar þau koma út sér karlinn hvar hrafnar margir eru í hrossskrokk. Óskar hann sér þá hann mætti eta krásir með þeim og yrði að hrafni – „og detti nú fótur!“ segir hann. Verður hann nú að hrafni og örglast nú í hrossskrokknum. Urðu hinir hrafnarnir þá svo illir við hann að þeir rifu hann og tættu og reyttu af honum fiður; skrækti hann ákaflega undan þeim. Þetta sér kerling hans og heyrir og kennir sáran í brjósti um karlskepnuna. „Verðirðu eins og þú varst, og detti nú fótur!“ segir kerling. Við það kastaði hann hrafnshamnum og varð næsta feginn. Átaldi kerling hann harðlega fyrir heimsku sína og lofaði karlinn góðu um það að gæta sín betur.
Að næsta morgni þegar karl er kominn á fætur og kemur inn í baðstofu sér hann hvar Slóði er að naga bein. „Gott eiga hundarnir að mega lepja sólskinið úti og naga beinin inni; nú vil ég verða hundur, og detti nú fótur!“ Í sömu svifum verður hann að hundi og langar svo mjög í bein, en ekkert var beinið til nema eitt. Narlar hann nú í annan endann hjá Slóða. Við það verður hann svo illur að hann flýgur á karl og ætlar hreint að drepa hann. Er hann nú í mesta voða staddur. Kerling kemur inn í þessu er hún heyrir skrækina í karli, grunar nú hvernig komið er, ætlar að skilja þá, en getur ekki; hellir síðan yfir þá úr koppnum sínum. Við það snauta þeir sinn í hvora áttina, karl undir rúm og fer að sleikja sínar sáru lappir, en Slóði fór út á þekju með beinið. „Sé þetta karlinn minn,“ segir kerling, „þá verði hann eins og hann var, og detti nú fótur!“ Við það losnaði karl úr hundshamnum víða læstur og lamaður. Kerling átelur hann fyrir heimsku sína og segir að nú sé ekki eftir nema ein óskin og skuli hún ráða henni. Karl heldur það bezt fara.
Næsta dag er þau koma út er mikið af kríu í túninu og lætur hún mikið. Karli þykir fuglinn svo fallegur og hefir um orð að óska sér hann yrði að svona fallegum fugli. Kerling var þar viðstödd og greip máli fyrir og mælti: „Seint mun mér fyrnast heimska þín. Þú ert nú búinn að eyða fjórum óskum til einkis; nú mun ég ráða hinni síðustu: Ég vildi við yrðum eins rík eins og ríkasti maður á Íslandi, og detti nú höfuð!“ Í þeim sömu svifum kemur maður í traðirnar ríðandi í flughasti, kveður þau karl og kerlingu og segir henni að bróðir hennar sé dáinn, ríkasti maður á Íslandi, niðjalaust; beri henni allur arfur eftir hann, lönd og lausir aurar; sé þeim bezt að flytja sig úr hreysi þessu og setjast að jörð þeirri sem bróðir hennar var á. Þau fluttu sig þangað strax um vorið og þókti kerling hinn mesti skörungur.