Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ekki á það að ætla

Kerlingar tvær áttu eitt sinn tal saman. Höfðu þær lengi lifað á vergangi og víða farið. Nú var önnur orðin svo hrum að hún gat ekki flakkað lengur og hélt sig eiga skammt eftir ólifað. Hin var ernari og bjó sig til ferða; ráðgerði hún í ferð þeirri að kanna ókunna stiga. En er hin heyrir það segir hún: „Blessuð mín, ef þú kannt að koma í himnaríki þá skilaðu kveðju minni til hennar sankti Maríá og segðu henni að nú sé ég orðin aumingi og hefði ég verið nær henni hefði ég beðið hana að gefa mér smjörklípu eða tóbakslauf í nösina.“ „Nei, hættu,“ segir hin, „það er ekki neitt á að ætla að ég komi í himnaríki; ég kann að fara þar annaðhvort fyrir neðan eða ofan.“