Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ekki dugir að dæsa

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Ekki dugir að dæsa“

Einu sinni skriftaði prestur kerlingu. Var það á þeim dögum er játning syndanna var gjörð með upptalningu þeirra. Samkvæmt embættisskyldu sinni spurði prestur kerlingu að syndum hennar og áminnti hana um að meðkenna þær hreinskilnislega. Kerling fór að telja upp syndirnar og stóð ekki við hjá henni; var margt ófagurt í sögu hennar svo presti tók að blöskra það og fór hann að andvarpa í hljóði yfir því hve margar og ljótar syndir kerling þessi hefði drýgt. En er hún verður þessa vör mælir hún: „Ekki dugir að dæsa, djöfuls presturinn, ótaldar eru allar stórsyndirnar enn.“